Gypsy [2] (1985-88)

Gypsy

Þungarokkshljómsveitin Gypsy sigraði Músíktilraunakeppni Tónabæjar 1985 en hún var stofnuð í upphafi þess sama árs. Sveitin var nokkuð áberandi í tónlistarlífi Íslendinga meðan hún starfaði, spilaði töluvert mikið en ekkert efni liggur þó útgefið eftir hana.

Meðlimir sveitarinnar voru Heimir Sverrisson bassaleikari, Hallur Ingólfsson trommuleikari (XIII, Ham o.fl.), Jón Ari Ingólfsson gítarleikari, Ingólfur Geirdal Ragnarsson gítarleikari (Stripshow, Dimma o.fl.) og Jóhannes Eiðsson söngvari (Sigtryggur dyravörður o.fl.).  Þeir Hallur og Jón Ari eru bræður.

Nokkrar mannabreytingar urðu í Gypsy meðan hún starfaði, Ólafur Jónsson tók við af Ingólfi gítarleikara en staldraði stutt við og tók Aðalsteinn Bjarnþórsson (Alli langbrók) við af honum, svo urðu bassaleikaraskipti síðla sumars 1985 í sveitinni þegar Ágúst [?] tók við bassanum af Heimi – Flosi Þorgeirsson leysti Ágúst síðar af og starfaði með sveitinni til ársins 1988 þegar hún hætti í upphafi þess árs. Jóhannes hafði hætt í sveitinni 1986 en kom inn í hana aftur ári síðar og starfaði með henni til loka.

Gypsy kom saman aftur vorið 2014 og lék þá í beinni útsendingu á Rás tvö.