Tíbet tabú (1987-88)

Tíbet tabú

Hljómsveitin Tíbet tabú starfaði veturinn 1987-88 en hún innihélt tónlistarmenn sem síðar áttu eftir að vekja mun meiri athygli í íslensku tónlistarlífi. Tveir meðlima hennar, gítarleikarinn Guðmundur Jónsson og trommuleikarinn Magnús Stefánsson, höfðu reyndar gert garðinn frægan með hljómsveitunum Kikk og Utangarðsmönnum en Flosi Þorgeirsson bassaleikari og Jóhannes Eiðsson söngvari höfðu ekki unnið nein stórafrek á sviði tónlistarinnar enn sem komið var, sá síðarnefndi hafði reyndar verið söngvari hljómsveitarinnar Gypsy sem sigraði Músíktilraunir 1985 en sú keppni var þá ekki orðin það sem hún síðar varð.

Þannig skipuð lék Tíbet tabú nokkuð á tónleikum framan af vetri og hugsaði stórt, Guðmundur gítarleikari átti í handraðanum fjölmörg lög og var sveitin fljótlega komin með ein fimmtán frumsamin lög á prógrammið og hafði m.a.s. tekið sex þeirra upp þegar Magnús trymbill og Flosi bassaleikari hættu fljótlega eftir áramótin. Í þeirra stað komu Össur Hafþórsson á bassa (sem kom úr Rauðum flötum) og Hallur Ingólfsson á trommur (úr Gypsy), sveitin starfaði þó einungis í fáeinar vikur með þá meðlimaskipan áður en þeir hættu störfum.

Lögin sem sveitin hljóðritaði hafa aldrei verið gefin út í þeirri mynd en líklegt má telja að einhver laganna fimmtán sem sveitin æfði upp, hafi endað á plötum Sálarinnar hans Jóns míns sem Guðmundur átti þátt í að skapa nokkrum mánuðum síðar.

Meðlimir Tíbet tabú hafa síðan poppað upp í fjölmörgum þekktum hljómsveitum í gegnum tíðina s.s. áðurnefndri Sálinni hans Jóns míns, Ham, Pelican, Skepnu, XIII og Nykur svo einungis fáar sveitir séu nefndar, Jóhannes var um tíma áberandi í söngvakeppnum á borð við Landslagið og Eurovision, og Guðmundur og Hallur eiga einnig sólóferil að baki.