Afmælisbörn 2. apríl 2021

Katrína Mogensen

Tvö afmælisbörn er á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Stefán Örn Arnarson sellóleikari er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag, hann nam hér heima og í Bandaríkjunum og gaf út plötu árið 1996 með verkum úr ýmsum áttum, þar sem sellóið er í aðalhlutverki. Sellóleik hans er einnig að finna á plötum ýmissa tónlistarmanna eins og títt er um klassísk menntað tónlistarfólk sem bjóðast verkefni af margbreytilegum toga, bæði í klassíska geiranum og í popptónlist.

Einnig á söngkonan, tónskáldið og myndlistakonan Katrína Mogensen afmæli á þessum degi en hún er þrjátíu og tveggja ára gömul. Katrína er auðvitað þekktust fyrir framlag sitt með Mammút sem sigraði Músíktilraunir 2004 en hún var jafnfram kjörin besta söngkona keppninnar það árið. Mammút hefur ennfremur gefið út nokkrar plötur og unnið til fjölda verðlauna. Katrína hefur starfað með ýmsum tónlistarmönnum og hljómsveitum og sungið á plötum Lokbrár, Ingós Veðurguðs, Morðingjanna, Rúnars Þórissonar, Ambáttar og Sykur t.d.

Vissir þú að Páll Rósinkranz var eitt sinn í hljómsveitinni Nirvana?