Samkór Breiðdælinga (1986-87)

Kór sem hlaut nafnið Samkór Breiðdælinga starfaði um skamma hríð á Breiðdalsvík sumarið 1986 og virðist hafa verið endurvakinn árið eftir.

Það voru þau Elín Ósk Óskarsdóttir og Kjartan Ólafsson sem stofnuðu Samkór Breiðdælinga en þau voru sumarið 1986 með nokkurra vikna söngnámskeið á Breiðdalsvík sem um tuttugu manns sóttu, blandaður kór var stofnaður samhliða því námskeiði í júní og mánuði síðar söng hann opinberlega eystra.

Svo virðist sem kórinn hafi einungis starfað í nokkrar vikur um sumarið 1986 en næsta vor (1987) söng hann aftur á höfuðborgarsvæðinu undir stjórn þeirra Elínar Óskar og Kjartans, væntanlega hefur hann þá verið við æfingar fyrr um vorið.

Þessi kór hefur að líkindum orðið til að kveikja söngáhuga eystra því um ári síðar var annar kór stofnaður á svæðinu skipaður fólki frá Breiðdalsvík og Stöðvarfirði undir nafninu Samkór Breiðdælinga og Stöðfirðinga.