Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur (1972-2000)

Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur

Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur (einnig nefndur Kór Trésmiðafélags Reykjavíkur) starfaði um árabil og var lengi vel eini kórinn sem kenna mætti við verkalýðsfélag, saga kórsins spannaði hátt í þrjá áratugi.

Það munu hafa verið Jón Snorri Þorleifsson þáverandi formaður Trésmiðafélags Reykjavíkur og Hannes Helgason sem fyrst vörpuðu fram þeirri hugmynd að stofna kór innan félagsins og kórinn var svo settur á laggirnar snemma vors 1972, stofnmeðlimir voru um tuttugu. Fyrsti stjórnandi kórsins var Jakob Hallgrímsson og stjórnaði hann honum til ársins 1974 en þá tók Guðjón Böðvar Jónsson við og stýrði honum til loka níunda áratugarins, að einu ári undanskyldu að Guðmundur Óli Gunnarsson var kórstjóri en hann var þá einungis nítján ára gamall.

Undir stjórn Guðjóns Böðvars gerðist Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur stofnaðili að Tónlistarsambandi alþýðu (TÓNAL) árið 1976 ásamt Lúðrasveit verkalýðsins og Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, sem um leið gerðist aðili að norræna samstarfinu Nordiska arbetarsangar- och musikerforbundet, kórinn átti eftir að fara margoft og syngja á samkomum á Norðurlöndunum tengt því samstarfi.

Kór Trésmíðafélags Reykjavíkur 1982

Í stjórnartíð Guðjóns Böðvars sendi kórinn einnig frá sér tíu laga plötu sem bar titilinn Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur flytur íslensk alþýðulög, ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær platan kom út og reyndar eru upplýsingar á umslagi hennar í lágmarki. Síðar söng kórinn átta lög á safnplötunni Tónaltónar, sem Tónlistarsamband alþýðu gaf út árið 1990 en þá var Kjartan Ólafsson orðinn stjórnandi kórsins, Kjartan stýrði kórnum til 1992 en þá tók við Ferenc Utazzy. Hann stjórnaði kórnum til 1995 en þá var komið að Jóhönnu V. Þórhallsdóttur sem hélt um stjórnvölinn til aldamóta þegar kórinn hætti störfum.

Samkór Trésmiðafélags Reykjavíkur innihélt yfirleitt um fjörutíu til fimmtíu meðlimi sem skiptust nokkuð jafnt milli kynjanna en flestir meðlimir kórsins voru trésmiðir og makar þeirra, reyndar var kórastarfið töluvert fyrirferðamikið í félagslífi félagsins og fyrstu árin söng hann eingöngu á samkomum félagsins s.s. árshátíðum o.þ.h., það var ekki fyrr en 1975 sem kórinn söng fyrst opinberlega og eftir það hélt hann árlega vortónleika sem yfirleitt voru ágætlega sóttir, kórinn var jafnfram alltaf duglegur að koma fram á samkomum tengdum degi verkalýðsins, 1. maí.

Efni á plötum