Safari [tónlistartengdur staður / útgáfufyrirtæki] (1983-86)

Merki Safaris

Veitinga- og skemmtistaðurinn Safari (einnig ritað Safarí / Zafari) var einn vinsælasti skemmtistaður höfuðborgarsvæðisins um miðbik níunda áratugar síðustu aldar, hann var um tíma eini staðurinn sem bauð upp á lifandi tónlist en Hótel Borg hafði þá verið lagður niður sem vettvangur fyrir slíkar uppákomur.

Safari sem var ætlaður gestum sextán ára og eldri opnaði í byrjun febrúar-mánaðar árið 1983 við Skúlagötu 30 í miðborginni en Magnús Kristjánsson var í fyrstu rekstraraðili staðarins, áður hafði verið í húsinu unglingaskemmtistaðurinn Villti tryllti Villi sem Tómas A. Tómasson (kenndur við Tomma-hamborgara, Hamborgarabúlluna o.m.fl.) hafði rekið en hann var eigandi hússins.

Frá fyrsta degi var lifandi tónlist í hávegum höfð í Safari þótt diskótek væri þar einnig og fyrsta kvöldið lék hljómsveitin Mezzoforte þar, aðrar þekktar sveitir sem komu þar við sögu voru t.d. Q4U, Egó, Pax Vobis, Kikk, Grafík, Oxsmá, Frakkarnir, Kukl, Rikshaw, Þursaflokkurinn og Tappi tíkarrass. Erlendir gestir heiðruðu staðinn einnig með nærveru sinni og má t.d. þar nefna Grace Jones, Imperiet og Etron Fou Leloublan. Annars konar tónlistartengdar samkomur fóru fram einnig í húsinu, þar var t.a.m. haldin Duran Duran hátíð þar sem aðdáendaklúbbur þeirrar sveitar var stofnaður og einnig var þar stofnsettur rokkklúbburinn Skarr en þeim klúbbi var svo reyndar úthýst úr Safari.

Dansgólfið í Safari

Magnús Kristjánsson var ekki lengi með rekstur Safaris því að í júní sama ár (1983) tóku hjónin Jóhannes Lárusson og Guðrún Reynisdóttir við rekstri staðarins og ráku hann þann tíma sem hann átti eftir að starfa. Jóhannes hafði áður verið í hópi þeirra sem ráku Hótel Borg sem tónleikastað og hann hélt þeim áherslum óbreyttum í bland við diskótek. Reyndar var Safari heilmikið í fréttum vegna annars máls en um sumarið auglýsti staðurinn með þeim orðum að „flestir“ væru velkomnir þangað inn – og þegar Jóhannes var inntur eftir þessu kom í ljós að hann vildi ekki homma („homosexual fólk“ eins og hann orðaði það) inn í Safari þar sem þeir væru iðulega til vandræða. Þessi orð Jóhannesar urðu tilefni nokkurra skrifa lesenda í dagblöðunum og umræðu í þjóðfélaginu og voru flestir á því að hann væri á villigötum með skoðun sína, sú umræða hélst nokkuð lifandi meðan Safari starfaði. Þess má og geta í þessu samhengi að þegar Bubbi Morthens hélt tónleika í Safari þá lék hann þar nýtt lag, Strákarnir á Borginni sem var eins konar stuðningur við hommana, Megas sem hafði átt að troða upp með Bubba á þeim tónleikum neitaði hins vegar að koma fram vegna málsins.

Safari

Reksturinn á Safari gekk þokkalega framan af en síðan tók að halla undan fæti, sumarið 1984 var staðurinn auglýstur fyrst til sölu en gekk þó áfram þar til vorið 1985 að honum var lokað og rekinn um sumarið undir nafninu Villti tryllti Villi, Safari opnaði þó aftur um haustið og starfaði undir því nafni fram yfir áramótin 1985-86 en í febrúar 1986 opnaði nýr staður, Roxzy í húsnæðinu. Síðar var skemmtistaðurinn Casablanca einnig starfræktur í húsinu framundir lok aldarinnar en síðan þá hefur þar ekki verið skemmtistaður, hins vegar hefur Kex hostel verið starfrækt í næsta húsnúmeri síðustu árin.

Safari kom einnig að útgáfu tveggja platna undir útgáfumerkinu Safari records á þeim tíma sem staðurinn var opinn, það voru annars vegar platan 1984 með hljómsveitinni Frökkunum og hins vegar Ný spor með Bubba Morthens sem þá hafði sagt skilið við hljómplötuútgáfuna Steinar – reyndar urðu eftirmál af þeim samstarfsslitum sem verða ekki tíunduð hér.