Samkór Vopnafjarðar [2] (1991-)

Samkór Vopnafjarðar

Samkór Vopnafjarðar starfaði allan tíunda áratug 20. aldarinnar með mikla blóma og eitthvað fram á þessa öld en heimildir um starfsemi kórsins síðustu tvo áratugina eru mjög af skornum skammti, hann er þó líklega enn starfandi þótt ekki sé söngurinn alveg samfelldur.

Mjög er á reiki hvenær kórinn var stofnaður og er hann ýmist sagður hafa verið stofnaður 1991 eða 1993, og enn aðrar heimildir segja 1988. Niðurstaðan í því máli er sú að hópur söngfólks á Vopnafirði hafi byrjað að æfa kórsöng með hléum með óformlegum hætti árið 1988, kórinn síðan stofnaður formlega 1991 og hafið þá markvissar æfingar en sungið á sínum fyrstu tónleikum 1993.

Það var Kristján Davíðsson sem var stjórnandi kórsins frá upphafi og til ársins 1996 og á þeim tíma söng hann alloft á heimaslóðum og reyndar einnig víðar um austan og norðanvert landið. Marcus Glanville tók við stjórninni af Kristjáni og var með kórinn í eitt eða tvö ár en svo var komið að Zbigniew Zuchowicz sem var stjórnandi til vorsins 2001, staða kórstjórnanda var að minnsta kosti auglýst þá en svo virðist sem hann hafi áfram verið undirleikari kórsins til 2006 eða jafnvel lengur. Á þessu tímabili var kórinn nokkuð öflugur í söngstarfi sínu, innihélt á milli 30 og 40 meðlimi og hélt tónleika víða um land við góðan orðstír.

Upplýsingar um Samkór Vopnafjarðar eru afar takmarkaðar eftir 2001 og svo virðist sem ekki hafi verið uppi samfellt söngstarf en kórinn hafi endrum og eins komið saman og sungið við ákveðin tækifæri í heimabænum, þannig finnast heimildir um hann frá nokkurra ára fresti og t.d. virðist sem Stephen Yates hafi stjórnað honum 2016 – hugsanlega gæti þó verið um einhvers konar rugling við Kirkjukór Hofs- og Vopnafjarðarkirkju að ræða.

Allt útlit er því fyrir að Samkór Vopnafjarðar sé enn starfandi en starfsemi hans sé ekki alveg samfelld.