Samkórinn Bjarmi (1946-80)

Samkórinn Bjarmi 1979

Samkórinn Bjarmi gladdi Seyðfirðinga og nærsveitunga með söng sínum frá því um miðja síðustu öld og fram til 1980, ekki starfaði kórinn þó alveg samfleytt.

Samkórinn Bjarmi mun hafa verið stofnaður formlega árið 1946 en eins konar vísir að honum söng þó á hátíðarhöldum í tilefni af stofnun lýðveldisins tveimur árum fyrr, stjórnandi kórsins þá var Steinn Stefánsson skólastjóri á Seyðisfirði en hann var einnig við stjórnvölinn frá 1946 og allt fram á sjöunda áratuginn – hversu lengi liggur þó ekki alveg fyrir en kórinn hafði verið í nokkurra ára pásu þegar hann var endurvakinn af Garðari Cortes haustið 1969 sem var þá nýútskrifaður tónlistarkennari sem tók við tónlistarskólanum á Seyðisfirði, sem einnig var þá endurvakinn eftir nokkurt hlé. Garðars naut ekki lengi við á Seyðisfirði og eftir einn vetur hvarf hann til starfa á höfuðborgarsvæðinu, engar upplýsingar finnast um kórastarfið næstu árin – hvort Bjarmi starfaði yfirhöfuð eða hver var stjórnandi kórsins. Fyrir liggur að kórinn var starfandi 1976 undir stjórn Gylfa Gunnarssonar þáverandi skólastjóra tónlistarskólans, og stjórnaði hann kórnum til 1980 en svo virðist sem Samkórinn Bjarmi leggi þá upp laupana.

Kórinn var mjög virkur fyrstu áratugina undir stjórn Steins, söng á fjölmörgum tónleikum og hvers kyns samkomum á Seyðisfirði og nágrenni s.s. við vígslu samkomuhússins Herðubreiðar, við forsetaheimsókn (1954) og á landsmóti UMFÍ á Eiðum (1952) en virðist lítið hafa farið út fyrir landsfjórðunginn, það sama virðist hafa verið uppi á teningnum þegar Gylfi stjórnaði kórnum.

Meðlimir kórsins voru yfirleitt á milli fjörutíu og fimmtíu talsins meðan hann starfaði.