Steinn Stefánsson (1908-91)

Steinn Stefánsson

Steinn Stefánsson var um nokkurra áratuga skeið einn af máttarstólpum menningarlífs á Seyðisfirði en þar var hann auk þess að starfa sem skólastjóri, bæði kórstjórnandi og tónskáld.

Steinn (Jósúa Stefánsson) var reyndar ekki Austfirðingur að uppruna heldur fæddist hann í Suðursveit sumarið 1908 og sleit þar barnsskónum en þar ólst hann upp við tónlist, lærði á harmoníum sem var til á æskuheimilinu. Steinn fór til Reykjavíkur í kennaranám og nam samhliða því einnig orgelleik og söng (á Laugarvatni) en að námi loknu árið 1931 fluttist hann austur á Seyðisfjörð þar sem hann átti eftir að búa og starfa næstu áratugina, fyrst sem kennari en síðan einnig skólaskóri barna- og unglingaskólans í bænum. Á Seyðisfirði stjórnaði hann einnig kórum, blönduðum kór sem gekk undir nafninu Samkórinn Bjarmi, karlakór, kirkjukór Seyðisfjarðarkirkju og barnakór einnig um árabil. Þannig varð Steinn drifkraftur í sönglífinu á Seyðisfirði ásamt eiginkonu sinni Arnþrúði Ingólfsdóttur sem lést langt fyrir aldur fram um miðjan sjöunda áratuginn. Steinn samdi einnig fjölda sönglaga og þegar hann kvaddi Seyðisfjörð árið 1975 eftir tæplega fjörutíu og fimm ára búsetu heiðruðu bæjarbúar hann með því að gefa út sönglagasafn með lögum hans – 12 sönglög eftir Stein Stefánsson. Steinn hafði þá einnig verið áberandi í bæjarpólitíkinni á Seyðisfirði og átti m.a. þátt í stofnun sósíalistaflokks sem þar starfaði um árabil.

Eftir að Steinn var kominn til Reykjavíkur fór minna fyrir tónlistarlegum verkefnum hans enda var hann þá farinn að nálgast sjötugt. Árið 1987 gaf hann þó út nýtt sönglagahefti sem bar heitið Fjölskyldusöngvar – 15 sönglög, en í því var að finna sönglög eftir ýmsa, þ.á.m. hann sjálfan en uppistaðan í því voru þó lög eftir Arnþrúði eiginkonu hans sem einnig hafði samið tónlist. Þau hjónin höfðu eignast fimm börn og fjögur þeirra urðu töluvert þekkt, Heimir varð þjóðgarðsvörður og útvarpsstjóri, Iðunn og Kristín hösluðu sér völl á ritvellinum og Ingólfur varð þekktur tónlistarmaður.

Steinn Stefánsson lést sumarið 1991, þá nýlega orðinn áttatíu og þriggja ára gamall.