Steinunn Hanna Hróbjartsdóttir (1940-2008)

Steinunn Jóhanna Hróbjartsdóttir

Steinunn Jóhanna Hróbjartsdóttir verður seint talin með þekktustu dægurlagasöngkonum Íslands en hún skipar þó merkan sess í tónlistarsögunni því hún var líklega fyrst allra hérlendis til að syngja rokk opinberlega.

Steinunn Jóhanna (fædd 1940) var ein af fjölmörgum ungum dægurlagasöngvurum sem fengu tækifæri til að spreyta sig á sviði framan við áhorfendur á síðari hluta sjötta áratugar síðustu aldar og fram á þann sjöunda en tónleikar þar sem ungum söngvurum gafst tækifæri á að syngja fyrir alþjóð nutu mikilla vinsælda og voru oft haldnir í Austurbæjarbíói og víðar.

Steinunn tók þátt í slíkri söngskemmtun um páskana 1956 þar sem nokkur ungmenni sungu með hljómsveit Jan Morávek en atriðið var hluti af revíukabarett hljómplötuútgáfunnar Íslenskra tóna en hún var þar reyndar auglýst undir nafninu Steinunn Hanna. Skemmtanirnar voru nokkrar og á þeim söng hún rokklagið Shake, rattle and roll sem Bill Haley & his Comets höfðu gert vinsælt tæpum tveimur árum fyrr og telst með allra fyrstu rokklögum sögunnar. Söngur Steinunnar á laginu markaði jafnframt tímamót hér á Íslandi því það var í fyrsta sinn sem rokk var sungið opinberlega á sviði hérlendis. Ekki segir af frammistöðu hennar en í umfjöllun Vísis um skemmtunina sagði blaðamaður alla ungu söngvarana hafa verið fremur óskýrmælta.

Steinunn lagði ekki sönginn fyrir sig eins og sumir af þessum ungu og efnilegu söngvurum gerðu, heldur helgaði hún sig námi í hárgreiðslu sem hún var þá í, lauk því og opnaði hárgreiðslustofu árið 1958 þá átján ára gömul og starfaði við þá iðn næstu áratugina.

Steinunn Jóhanna Hróbjartsdóttir lést haustið 2008 eftir að hafa átt í veikindum um hríð.