Samkórinn Björk (1983-2020)

Samkórinn Björk og Thomas Higgerson

Samkórinn Björk starfaði í um þrjá áratugi og var áberandi í sönglífi Austur-Húnvetninga á þeim tíma, kórinn sendi frá sér eina plötu.

Það var hópur innan Tónlistarfélags Austur-Húnavatnssýslu sem hafði frumkvæði að því að Samkórinn Björk var stofnaður á Blönduósi haustið 1983 en nafn kórsins kemur frá húsi sem bar nafnið Björk, og hýsti tónlistarskólann á staðnum. Kórmeðlimir urðu fljótlega um fjörutíu talsins og komu úr fimm hreppum úr sýslunni og veitti ekki af mannskapnum því fyrsta verkið sem fyrsti stjórnandinn, Norðmaðurinn Sven Arne Korshamn, setti fyrir kórinn var hluti af Gloria e. Vivaldi, sem flutt var á Húnavöku vorið 1984 við undirleik Guðjóns Pálssonar. Húnavaka var einmitt helsti vettvangur kórsins til að koma fram enda var hann þar fastur liður á dagskrá næstu árin.

Samkórinn Björk starfaði næstu árin við jákvæðar undirtekir, Sigurður G. Daníelsson tók við stjórninni af Sven Arne og undir hans stjórn fjölgaði mjög í kórnum þegar Kirkjukór Skagastrandar gekk í heilu lagi til liðs við hann árið 1986. Sigurður var við stjórnvölinn til 1990 en þá gerðist Svanborg Sverrisdóttir stjórnandi kórsins, kórinn var á þessum árum töluvert áberandi enda orðinn býsna fjölmennur (milli fimmtíu og sextíu manns) og söng hann töluvert mikið opinberlega, m.a. á Húnavöku en kórinn hélt þó einnig stöku sjálfstæða tónleika og fór jafnvel suður til Reykjavíkur til tónleikahalds.

Samkórinn Björk 1988

Árið 1992 tók Rosemary Hewlett við kórstjórninni og stýrði honum um þriggja ára skeið en haustið 1995 var komið að Sólveigu S. Einarsdóttur sem var við stjórnvölinn í einn vetur. Peter Wheeler var svo næstur og undir hans stjórn réðist Samkórinn Björk í plötuupptöku í Blönduóskirkju vorið 1997 en áætlað var að gefa út plötu árið eftir. Þá um sumarið lést Peter Wheeler reyndar úti í Frakklandi og tók Thomas Higgerson við stjórn kórsins, því söng kórinn undir stjórn tveggja kórstjórnenda á plötunni sem kom svo út haustið 1998 – Sigurður Rúnar Jónsson (Diddi fiðla) annaðist upptökuþáttinn. Samkórinn Björk gaf plötuna út sjálfur og bar hún plötuheitið Bjarkartónar: Ég óskaði forðum, hún hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi.

Meðlimum Samkórsins Bjarkar tók nú smám saman að fækka, fjöldinn hafði um miðjan tíunda áratuginn verið kominn niður í fjörutíu meðlimi og um aldamót voru þeir í kringum tuttugu og fimm, jafnvel færri á stundum. Samhliða því fór minna fyrir kórnum og verkefnunum fækkaði, fastur punktur í dagskrá hans var þó eins og áður Húnavaka, auk árlegra jólatónleika en einnig hafði kórinn verið í söngsamstarfi við Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps og sungið með honum á ýmsum tónleikum frá 1990. Þess má einnig geta að í tíð Rosemary Hewlett og Sólveigar S. Einarsdóttur starfaði söngkvartett innan kórsins undir nafninu Bjarkarkvartettinn (á árunum 1994-96).

Soffía F. Rafnsdóttir tók við kórstjórninni af Thomas Higgerson árið 2001 og stjórnaði hún kórnum í einn vetur en Michael Jón Clarke kom næstur og var sömuleiðis einn vetur, þá var komið að Þórhalli Barðasyni sem stjórnaði kórnum næsta áratuginn eða þar til hann hætti störfum – líklega árið 2013, árið 2008 kom út önnur plata með kórnum, hún bar titilinn Blanda. . Síðustu árin var söngur kórsins ekki áberandi og líklega fjaraði smám saman undan honum þótt hann kæmi vissulega árlega fram opinberlega.

Kórinn var svo formlega lagður niður árið 2020 en hann hafði þá í raun ekki verið starfandi um nokkurra ára skeið.

Efni á plötum