
Samúel Ingimarsson á yngri árum
Samúel Ingimarsson (f. 1952) hefur verið framarlega í kristilegu starfi hér á landi um árabil sem æskulýðsleiðtogi, forstöðumaður Fíladelfíu, predikari og leiðtogi í Veginum svo dæmi séu nefnd en í því starfi hefur tónlistin alltaf verið stór þáttur og fjöldi útgáfa í hvers konar formi kemur út árlega.
Samúel var aðeins fimmtán ára þegar hann hóf að stjórna og annast tónlist í starfi sínu innan Fíladelfíu árið 1967, hann stjórnaði þar m.a. unglingakórum, lék á gítar og söng sjálfur einnig. Það var svo líklega árið 1981 sem rödd hans heyrðist fyrst á útgefnum kassettum, fyrst á safnkassettunni Lofum Drottin saman og það sama ár kom út kassetta í hans nafni sem bar heitið Gleymum sjálfum oss um stund: Samúel Ingimarsson syngur og leikur, á henni söng hann lofgjörðarsöngva við eigin gítarundirleik. Því miður eru upplýsingar um þá útgáfu af afar skornum skammti og er hér með óskað eftir þeim.
Söng Samúels má heyra á fleiri útgefnum kassettum, plötum og geislaplötum í trúarlega geiranum, mestmegnis er þar um að ræða safnútgáfur eins og Hjálparhönd (1988), Niður við krossinn (1989), Lofum hann (1990) og Lofum hann 2 (1990). Sjálfsagt vantar miklu meira í þessa upptalningu og upplýsingar þess efnis má senda Glatkistunni með fyrirfram þökkum.