Sigmundur og Gunnar Jónssynir (1957- & 1959-)

Gunnar og Sigmundur Jónssynir

Bræðurnir Sigmundur og Gunnar Jónssynir frá Einfætingsgili í Bitrufirði í Strandasýslu voru töluvert áberandi í söng- og tónlistarlífi Strandamanna á níunda áratug síðustu aldar þótt þeir væru þá löngu fluttir á höfuðborgarsvæðið en þeir eru enn virkir söngmenn og syngja gjarnarn einsöng með kórum sínum.

Þeir bræður, Sigmundur fæddur 1957 og Gunnar tveimur árum síðar, eru báðir fæddir á Hólmavík en ólust upp á bænum Einfætingsgili ásamt systkinum sínum en þeir eru af söngelsku fólki komnir og má geta þess að faðir þeirra, Jón Sigmundsson var yfir sjötíu ár í Kirkjukór Óspakseyrar en einnig voru þeir bræður (ásamt þremur öðrum bræðrum sínum) í þeim kór meðan þeir bjuggu í hreppnum.

Sigmundur (tenór) og Gunnar (baritón) hafa báðir búið og starfað á höfuðborgarsvæðinu síðan á áttunda áratugnum en lengi vel voru þeir duglegir að syngja á heimaslóðum sínum á Hólmavík og nágrenni, bæði einsöng á tónleikum og í messum. Þeir hafa svo sungið með fjölda kóra á höfuðborgarsvæðinu og töluvert mikið sungið einsöng með þeim kórum, Karlakór Reykjavíkur, Kór Hjallakirkju, Kór Átthagafélags Strandamanna og Söngfélaginu Drangey en einnig víða við messuhald, þeir hafa báðir numið sönglistina.

Þá gáfu þeir Sigmundur og Gunnar út kassettu árið 1989 sem bar titilinn Hirðingjasveinn, upplýsingar um þessa útgáfu eru reyndar af afar skornum skammti en þó liggur fyrir að þeir bræður syngja sautján lög við undirleik David Knowles á píanó. Þeir hafa einnig sungið einsöng og tvísöng á plötu með Kór Átthagafélags Strandamanna (1994) en einnig söng Sigmundur einsöng með Karlakór Reykjavíkur á plötunni Við eigum samleið, sem helguð var lögum Sigfúsar Halldórsonar (1996).

Efni á plötum