Sigurður Dagbjartsson (1959-)

Sigurður V. Dagbjartsson

Sigurður V. Dagbjartsson söngvari og gítarleikari er gamall í hettunni og hefur leikið með fjölda hljómsveita í gegnum tíðina, einkum ballsveitum en þó einnig með þekktari sveitum eins og Upplyftingu. Þótt ekki þekki ekki endilega allir nafn hans þá á hann samt sem áður stórsmell sem allir kannast við en það var upphaflega gefið út í hans nafni.

Sigurður Vilberg Dagbjartsson er fæddur 1959 og kemur upphaflega úr Hveragerði, að minnsta kosti bjó hann þar öll unglingsárin og byrjaði þar að leika sem gítarleikari með hljómsveitum en það voru sveitir á borð við Stress og Maraþon.

Stóra tækifærið kom hins vegar þegar hann fór í Samvinnuskólann á Bifröst í Borgarfirði og gekk þar til liðs við skólahljómsveitina Capital en hún fékk síðan nafnið Upplyfting (sem var sveit sem einn meðlima hennar hafði starfrækt á Hofsósi). Þar lék hann sem fyrr á gítar og söng einnig en sveitin varð landsfræg þegar hún sendi frá sér plötu sumarið 1980 með lögum eins og Kveðjustund og Traustur vinur, vinsældirnar urðu síst minni með næstu plötu 1981 þar sem lagið Endurfundir hljómaði í hverjum óskalagatíma Ríkisútvarpsins og hvað þá þegar þriðja platan kom 1982 sem hafði að geyma syrpuna Í sumarskapi, Sigurður var meðal lagahöfunda á plötunum. Sigurður var því í einni vinsælustu hljómsveit landsins í miðri pönk- og Bubba-byltingunni en nafn hans var þó ekkert sérstaklega í umræðunni enda voru í raun fjórir söngvarar innan sveitarinnar.

Sigurður í Upplyftingu

Haustið 1982 komu svo út tvö lög með Sigurði einum á safnplötunni Við djúkboxið sem kom út hjá SG-hljómplötum en annað þeirra laga, Rabbabara Rúna sló í gegn og varð feikivinsælt. Lagið sem er erlent við íslenskan texta Þorsteins Eggertssonar er löngu orðið klassík í íslenskri popptónlistarsögu og heyrist oft spilað enn í dag, það hefur komið út á ótal safnplötum í gegnum tíðina og það að Rokklingarnir tóku það upp á sína arma hlýtur að bera vitni um vinsældir þess. Hvernig sem á því stendur varð Sigurður ekkert sérstaklega þekktur fyrir Rabbabara Rúnu og flestir skrifuðu lagið á Upplyftingu sem kom þó ekki nálægt útgáfunni á laginu, sveitin tók það hins vegar upp á sína arma og flutti það á dansleikjum og hefur það því fylgt þeirri sveit síðan en hún hefur starfað með hléum til dagsins í dag. Hitt lagið á safnplötunni, Uns ég verð tuttugu og eins hefur hins vegar lítið sem ekkert heyrst.

Upplyfting starfaði sem fyrr segir ekki samfleytt og er sveitin lá í híði starfaði Sigurður með fjölda annarra hljómsveita, þetta voru ballsveitir á borð við Pondus og Babadú en síðarnefnda sveitin lék á plötu Rokkbræðra sem kom út 1985. Þess má geta að Sigurður tók þátt í hæfileikakeppni umboðsskrifstofunnar Sóló um miðjan níunda áratuginn og hafnaði þar í öðru sæti. Þá lék hann einnig með hljómsveitum eins og Tóniku, Danshljómsveit Reykjavíkur, Fiction, Ljósbrá og X-izt (um tíma) og þegar Upplyfting sendi frá sér plötu 1990 var hann að sjálfsögðu þar.

Upplyfting fór á fullt á nýjan leik og lék mikið í kjölfar þeirrar plötu sem náði nokkrum vinsældum, og í framhaldi af því var hann meðal söngvara sem kepptu í undankeppni Eurovision 1990 (Eitt lítið lag) og Landslaginu sama ár (Draumadansinn) en síðarnefnda lagið kom út á plötu tengdri keppninni, þá söng hann tvö lög í Sæluviku-keppninni 1996 og komu þau lög út á samnefndri plötu.

Sigurður V. Dagbjartsson

Sigurður söng og lék á gítar á fjölda platna annarra tónlistarmanna á þessum tíma, hér má nefna plötur með Gunnari Óskarssyni (1986), Lýði Ægissyni (1988 og 1992), Hilmari Hlíðberg (1989), Selmu Hrönn Maríusdóttur (1990), Geirmundi Valtýssyni (1991 og 1995) og Ómari Diðrikssyni (1996), og á nýrri öld kom hann einnig við sögu á plötum Sveins M. Sveinssonar (2011, 2013 og 2017), Ara Jónssonar (2012), Hafsteins Reykjalín (2012) og Halldórs Skarphéðinssonar (2014). Reyndar hafa nokkur lög komið út með Sigurði sjálfum á nokkrum plötum, hér má nefna safnplötur eins og Neyðarlögin (2011), Gæðamolar (1996) og Bjarta bros (2017). Vinsælustu lög Upplyftingar hafa að sjálfsögðu einnig komið út á fjölmörgum safnplötum enda urðu nokkur lög sveitarinnar afar vinsæl og urðu sígild, eins og t.d. Traustur vinur.

Eftir að tók að róast aftur hjá Upplyftingu eftir vinsældirnar í kringum 1990 lék Sigurður og söng með ýmsum ballsveitum eins og áður, þetta voru sveitir eins og dúettinn Ljúflingarnir, Karnival, Express, Kusk, Danssveitin (KOS/KÓS), dúettinn Hot‘n sweet og Rokkhljómsveit Rúnars Júl en þeir Rúnar komu einnig stundum saman opinberlega tveir einir, þeir Sigurður voru uppi með plön um að gera plötu saman en Rúnari entist ekki líf til þess. Einnig var Sigurður eitthvað að koma fram einn sem trúbador um tíma. Á síðustu árum hefur hann leikið með sveitum eins og Króm, SOS (Súrt og sætt) og auðvitað Upplyftingu þegar hún hefur starfað en sú sveit sendi frá sér plötu árið 2020. Sigurður er því hvergi nærri hættur í tónlistinni.