Sigurmolarnir (2004)

Úr myndbandi Sigurmolanna – Engilbert Jensen

Sigurmolarnir var hópur söngvara sem söng lag eftir Sverri Stormsker sem kom út sumarið 2004 á safnplötunni Svona er sumarið 2004 en það var eins konar hvatningarlag í anda Hjálpum þeim, lagið var þó ekki gefið út til styrktar neinu sérstöku málefni heldur var fremur andlegt pepp fyrir Stormskerið sem þá hafði nýlega misst hús sitt í bruna.

Lagið sem bar heitið Sigurlagið var sérstætt að því leyti að allir söngvararnir fengu sóló línu og voru því forsöngvarar í því en þeir voru alls þrjátíu og sex talsins en líklega hefur hvergi annars eins fjöldi sungið í einu lagi án þess að um sé að ræða kórlag, þótt vissulega sé um að ræða kórsöng í viðlaginu. Of langt mál yrði að telja upp alla söngvara lagsins en allt var það þekkt tónlistarfólk og eru hér nefnd nöfn fáeinna þeirra: Ómar Ragnarsson, Ragnar Bjarnason, Birgitta Haukdal, Andrea Gylfadóttir, Sigríður Beinteinsdóttir, Gunnar Ólason, Hreimur Örn Heimisson, Ellen Kristjánsdóttir, Stefán Hilmarsson, Ruth Reginalds, Egill Ólafsson, Árni Johnsen og Rúnar Júlíusson.

Sigurlagið naut nokkurra vinsælda en telst þó varla með vinsælustu lögum Sverris Stormskers.