Vinir vors og blóma [2] (1993-96 / 2004-13)

Vinir vors og blóma 1993

Hljómsveitin Vinir vors og blóma (VVOB) var um þriggja ára skeið ein öflugasta og vinsælasta ballhljómsveit landsins á tíunda áratug síðustu aldar og sendi frá sér þrjár breiðskífur á þeim tíma.

Sveitin var stofnuð vorið 1993 upp úr Busunum og Testimony soul band co., úr fyrrnefndu sveitinni sem var úr Stykkishólmi komu Þorsteinn Gunnar Ólafsson söngvari, Siggeir Pétursson bassaleikari og Njáll Þórðarson hljómborðsleikari en úr þeirri síðarnefndu komu Birgir Nielsen trommuleikari og Gunnar Þór Eggertsson gítarleikari, sú sveit hafði starfað í Reykjavík.

Það fyrsta sem heyrðist frá hljómsveitinni var lagið Tapað fundið sem birtist á safnplötunni Íslensk tónlist 1993 sem kom út þá um sumarið og um svipað leyti kom út annað lag, Gott í kroppinn á annarri safnplötu, Lagasafnið 3. Síðarnefnda lagið sló samstundis í gegn og vakti verulega athygli á sveitinni. Vinirnir nýtt sér meðbyrinn, léku m.a. á útihátíð í Þjórsárdalnum og reyndar hvarvetna sem það bauðst til að koma sér almennilega á sjónarsviðið.

Strax um haustið 1993 hófu þeir vinnu við breiðskífu en um svipað leyti kom út annar slagari, Maður með mönnum á safnplötunni Heyrðu 2, sem styrkti stöðu sveitarinnar og því lék hún því víða á skólaböllum og öðrum dansleikjum um veturinn, þar sem menn kyrjuðu gjarnan „það er maður með mömmu“ með hæfilegum útútsnúningi. Lagið gekk síðar í endurnýjun lífdaga í Stundinni okkar undir heitinu Settu plástur á meiddið.

Vinir vors og blóma

Þótt Vinir vors og blóma væri öflug sveit allt árið um kring var áherslan alltaf lögð á sumrin sem var þeirra tími, og þá komu allar breiðskífur sveitarinnar út. Sú fyrsta birtist sumarið 1994 og var gefin út af Skífunni en þeir félagar höfðu þá gert samning um þrjár plötur. Platan hlaut nafnið Æði og var ellefu laga, hún hlaut nokkuð almenna hylli og sveitin varð um sumarið vinsælasta ballsveitin ásamt SSSól, og lék m.a. á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina. Hún hafði verið tekin upp á um þremur vikum og var Arnþór Örlygsson (Addi 800) aðalmaðurinn við upptökurnar sem fóru að mestu fram í félagsheimilinu Logalandi, tónlistinni var nokkuð líkt við létt gleðipopp Greifanna sem höfðu átt sitt blómaskeið sex til átta árum fyrr og sýndist sitt hverjum um hana en óneitanlega varð sveitin vinsæl og platan seldist mjög vel. Tónlistin var eftir þá félaga en textarnir komu úr ýmsum áttum, flestir þó eftir Þorstein söngvara. Æði fékk þó varla nema sæmilega dóma í Æskunni og Eintaki en þokkalega í DV og Degi.

Lögin Frjáls og titillagið Æði nutu hvað mestra vinsælda auk áðurnefnds Maður með mönnum en einnig var að finna live-útgáfu af laginu Gott í kroppinn. Platan var tileinkað minningu félaga þeirra úr Stykkishólminum, Ólafs H. Stefánssonar sem hafði verið gítarleikari Busanna en hann lést eftir veikindi snemma árs 1992.

Vinir vors og blóma voru staðráðnir í að hamra járnið á meðan það var heitt og fóru þeir því um haustið í hljóðver til að taka upp tvö lög sem áttu að koma út á safnplötu fyrir jólin 1994, plönin voru að keyra á fullu fram að áramótum en fara að þeim loknum í hljóðver um mánaðar skeið til að taka upp nýja plötu fyrir næstu sumarvertíð.

Um haustið 1994 kom síðan lagið Hátt út á safnplötunni Heyrðu 5 og á þeirri næstu í sömu safnplöturöð birtist lagið Losti snemma vors 1995, sem varð næsti smellur sveitarinnar. Losti var einnig á breiðskífunni sem tekin hafði verið upp snemma árs eins og gert hafði verið ráð fyrir, og frá því í byrjun febrúar fóru þeir félagar á fullan skrið aftur í spilamennsku.

Vinirnir árið 1994

Plata númer tvö hlaut titilinn Twisturinn og hafði verið hljóðrituð á Flúðum að mestu leyti en hún kom út í júní. Fleiri komu að upptökum þeirrar plötu heldur en þeirrar fyrstu, lögin voru sem áður eftir þá félaga en textarnir komu víðs vegar að og komu þar m.a. Egill Ólafsson, Bubbi Morthens og Kristján Hreinsson við sögu.

Twisturinn fékk ekki eins góðar viðtökur og Æði en hún seldist þó þokkalega, gagnrýnendur voru misjafnir í dómum sínum og fékk platan slaka dóma í DV, sæmilega í Degi en ágæta í Morgunblaðinu. Sveitin hélt þó sínum krafti í ballspilamennskunni um sumarið og sló þar hvergi af, léku aftur á þjóðhátíð í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina og fengu almennt þokkalega ballaðsókn.

Þegar haustaði dró heldur úr spilamennskunni hjá Vinunum enda höfðu þeir þá leikið nokkuð sleitulaust frá því sumarið 1993, þeir notuðu veturinn til að vinna að þriðju og síðustu plötunni sem Skífu-samningurinn hafði kveðið á um.

Um vorið 1996 sendu þeir frá sér gamla gospel-slagarann Oh happy day sem Flosi Ólafsson og Pops höfðu gefið út áratugum fyrr undir nafninu Ó ljúfa líf, á safnplötunni Pottþétt 3. Lagið sló í gegn og varð vinsælasta lagið af þriðju plötunni sem kom út um sumarið undir titlinum Plútó. Samhliða því létu þeir aftur að sér kveða á ballsviðinu eins og gera mátti ráð fyrir, og svo var keyrt á fullt um sumarið en þá höfðu þeir ákveðið að hætta störfum um haustið eftir sumarvertíðina, fannst þetta orðið gott eftir nánast fjögurra ára stanslaust stuð.

Plútó var hljóðrituð í Sýrlandi, Stöðinni og Hljóðhamri og var Addi 800 maðurinn á bak við upptökurnar. Platan fékk betri dóma en fyrri plöturnar, þokkalega í Morgunblaðinu og ágæta í Degi, en seldist minna en hinar. Sveitin vakti nokkra athygli um sumarið annars vegar fyrir samstarf sitt við Jafningjafræðsluna þar sem hluti stefgjalda þeirra runnu til samtakanna, hins vegar fyrir samstarf sitt við Pétur Blöndal forsetaframbjóðanda en forsetakosningar fóru fram þetta sumar og fylgdi sveitin Pétri víða til að skemmta á framboðsfundum hans.

2004 útgáfa sveitarinnar

Vinir vors og blóma spiluðu nokkuð samfleytt til loka ágústs 1996 en þá hvarf sveitin af sjónarsviðinu eins og þeir höfðu ætlað sér. Það er þó varla hægt að segja að þeir félagar hafi alveg horfið sjónum þar sem sveitin birtist í nokkur skipti og lék á dansleikjum árið 1997 og 98, og aftur 2001. Þá höfðu Gunnar Þór gítarleikari, Birgir trommari og Njáll hljómborðsleikari gengið til liðs við hljómsveitina Land og syni og gert garðinn frægan með þeirri sveit.

Árið 2004 voru Land og synir hins vegar komnir í pásu og þá birtust Vinir vors og blóma, reyndar án Þorsteins söngvara sem þá var starfsmaður Landsbanka Íslands í Lúxumborg og átti því ekki heimangengt. Bergsveinn Arilíusson (Beggi í Sóldögg) tók sæti Þorsteins í sveitinni og söng með þeim af og til á næstu árum þegar Vinirnir poppuðu upp. Sveitin hefur þó ekki komið fram síðan 2013 en hefur aldrei hætt formlega.

Árið 2007 sendi sveitin frá sér lagið live-útgáfu af laginu Frjáls sem kom út á safnplötunni Gleðilegt sumar! en annað efni hefur ekki komið frá sveitinni síðustu misserin, til stóð að safnplata kæmi út með vinsælustu lögum sveitarinnar en af því hefur enn ekki orðið.

Efni á plötum