Vinir og vandamenn [2] [tónlistarviðburður] (1981)

Frá tónleikunum í Þjóðleikhúsinu

Sumarið 1981 voru haldnir tvennir tónleikar í Þjóðleikhúsinu undir yfirskrifinni Vinir og vandamenn en þeir voru haldnir til styrktar MS-félaginu sem þá hélt upp á tíu ára afmæli sitt.

Það var tónlistarmaðurinn Karl J. Sighvatsson sem hafði veg og vanda af þessum tónleikum, og fékk tónlistarfólk úr öllum geirum íslensks tónlistarlífs til að koma fram endurgjaldslaust. Framkvæmdastjóri tónleikanna var Tolli Morthens.

Meðal tónlistarfólks sem kom fram á tónleikunum má nefna Grýlurnar, Þursaflokkinn, Mezzoforte, Magnús Eiríksson, Gunnar Þórðarson, Laufeyju Sigurðardóttur, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Orghestana, Friðryk og svo Náttúru með Shady Owens í fararbroddi en sú sveit hafði ekki komið saman í fjöldamörg ár.

Vinir og vandamenn fóru fram í Þjóðleikhúsinu kvöldin 29. og 30. júní og var nánast húsfyllir bæði kvöldin, Sigurður Rúnar Jónsson hjá Stemmu tók herlegheitin upp og jafnvel stóð til að gefa þau út en af því varð aldrei hver svo sem ástæðan var.