Vinir Óla (1992-2000)

Vinir Óla

Dixielandsveitin Vinir Óla starfaði á tíunda áratug síðustu aldar í tæpan áratug en ekki er loku fyrir skotið að hún hafi starfað lengur. Sveitin var skilgetið afkvæmi eins og það var orðað eða angi af Lúðrasveit Vestmannaeyja og eins og með fleiri slíka anga eru skilgreiningar á slíkri sveit ekki alltaf á hreinu, stundum nefnd léttsveit, stundum djasssveit, stórsveit eða dixielandsveit allt eftir skipan hverju sinni. Sveitin mun jafnvel hafa brugðið fyrir sér danstónlist ef þurfti.

Fyrstu heimildir um Vini Óla er að finna frá árinu 1992 og svo virðist sem sveitin hafi einkum komið saman og leikið í kringum djasshátíð þeirra Eyjamanna, Daga lita og tóna sem haldin var í fjölmörg ár, og svo í kringum Þjóðhátíð Vestmannaeyinga.

Óli sá sem sveitin er kennd við mun vera Ólafur Jónsson saxófónleikari í Eyjum en ekki er ljóst hvort hann var einhvers konar leiðtogi sveitarinnar eða stjórnandi, eða hvort einungis um grín var að ræða. Skipan Vina Óla var líklega eins mismunandi og fjöldi skipta sem sveitin birtist opinberlega en að öllum líkindum var um eins konar kjarna hennar að ræða sem bætti við sig gestum eftir því sem við átti, jafnvel komu þekktir djassleikarar við sögu sveitarinnar en voru ekki endilega meðlimir hennar.

Önnur útgáfa Vina Óla

Þau nöfn sem Glatkistan hefur undir höndum auk Ólafs, eru Huginn Sveinbjörnsson saxófónleikari, Birkir Freyr Matthíasson trompetleikari, Eðvald Eyjólfsson trommuleikari, Hafsteinn Guðfinnsson gítarleikari, Jón Kristinn Sverrisson trompetleikari, Árni Elfar básúnuleikari, John Lewis píanóleikari, Birgir Hrafn Hafsteinsson gítarleikari, Leifur Geir Hafsteinsson bassaleikari, Kristinn Jónsson [?] og Erlendur Jónsson píanóleikari. Hér er eflaust hægt að bæta við nöfnum og má senda Glatkistunni upplýsingar um þau.

Vinir Óla störfuðu til ársins 2000 að minnsta kosti.