Soma (1996-98)

Soma1

Soma

Reykvíska indírokksveitin Soma vakti á sínum tíma mikla athygli fyrir plötuna Föl, þar sem lagið Grandi Vogar II naut mikilla vinsælda sumarið 1997.

Soma var stofnuð vorið 1996 af Guðmundi Annas Árnasyni söngvara, Þorláki Lúðvíkssyni hljómborðsleikara, Snorra Gunnarssyni gítarleikara, Jónasi Hlíðari Vilhelmssyni trommuleikara, Halldóri Sölva Hrafnssyni gítarleikara og Pétri Rafnssyni bassaleikara. Þannig skipuð sigraði sveitin Fjörungann, hljómsveitakeppni sem haldin var á Akureyri um vorið. Í raun var um að ræða hljómsveitina Glimmer en nafni sveitarinnar var breytt um það leyti sem Fjörunginn fór fram.

Kristinn Jón Arnarson tók við bassanum af Pétri um sumarið 1996 og á næstu vikum réðist sveitin í upptökur á plötu sinni, Föl sem kom síðan út vorið 1997. Platan sem þeir Soma-liðar gáfu sjálfir út var hljóðrituð í Grjótnámunni og Stúdíó Stef, hún fékk góðar viðtökur almennings og gagnrýnendur Morgunblaðsins og Dags/Tímans gáfu henni fína dóma, einnig hlaut Föl þokkalega dóma í DV.

Sveitin lék víðs vegar þar til hún hætti störfum sumarið 1998, þá var sveitin þegar farin að vinna að nýrri plötu og hafði sent frá sér eitt lag í spilun. Þeir félagar voru þó ekki alveg hættir að spila saman því upp úr leifum Soma var hljómsveitin Stolið stofnuð.

Efni á plötum