Glimmer (1994-96)

Glimmer

Glimmer

Hljómsveitin Glimmer var pönkrokkband sem var ekki áberandi á sínum tíma, sveitin gaf þó út snældu og kom síðar fram sem hljómsveitin Soma eftir mannabreytingar.

Glimmer var stofnuð haustið 1994 og var þá skipuð þeim Snorra Gunnarssyni gítarleikara, Halldóri Sölva Hrafnssyni gítarleikara, Þorláki Lúðvíkssyni söngvara, Hafliða Ragnarssyni trommuleikara og Pétri Rafnssyni bassaleikara. Þegar Hafliði trymbill hætti tók Jónas Vilhelmsson við af honum.

Sveitin gaf út átta laga snældu um vorið 1995 sem fór ekki sérlega hátt og um haustið voru tvö lög af henni á safnplötunni Strump í fótinn. Flest lögin voru frumsamin.

Um það leyti sem sveitin tók þátt í norðlensku hljómsveitakeppninni Fjörunganum sumarið 1996 urðu mannabreytingar í henni, og þá notuðu þeir tækifærið og breyttu nafni sveitarinnar í Soma. Þegar sú sveit gaf út plötu 1997 voru nokkur laganna á þeirri plötu þau sömu og höfðu verið á snældu Glimmers.

Efni á plötum