
Tilburi 2005
Starfstímabil hljómsveitarinnar Tilbura eru tvö, annars vegar starfaði sveitin á fyrri hluta tíunda áratugar síðustu aldar og hins vegar nokkru eftir aldamótin.
Tilburi var líklega stofnuð haustið 1992 en sveitin fór að koma fram opinberlega og vekja nokkra athygli fyrir rokk sitt vorið 1993. Um það leyti komu út þrjú lög með sveitinni á safnsnældunni Strump 2 en meðlimir sveitarinnar voru þá útgefandi snældunnar, bassaleikarinn Magnús Axelsson, Róbert Ingi Douglas söngvari, Jónas Hlíðar Vilhelmsson trommuleikari og Alfreð Mounir Marinósson gítarleikari
Haustið 1993 urðu mannabreytingar í sveitinni þegar nýr söngvari gekk til liðs við hana, það var Þorlákur Lúðvíksson en hann söng með sveitinni á þriggja laga smáskífu (sjö tommu), Rough life, sem Tilburi sendi frá sér haustið 1994 undir merkjum Veraldarkeralda, útgáfufyrirtækis Magnúsar.
Rough life hafði verið tekin upp um vorið læf í „bílskúrsholu“ á tveggja rása teip eins og segir á umslagi plötunnar en platan var pressuð í grænan vínyl og gefin út í þrjú hundruð tölusettum eintökum. Um sama leyti og smáskífan kom út lagðist sveitin aftur í dvala og starfaði nú ekki í heilan áratug.
Það var ekki fyrr en haustið 2004 sem spurðist til Tilbura á nýjan leik en þá lék hún nokkuð opinberlega á tónleikum, þá var kominn nýr söngvari til sögunnar (Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson) en liðsskipan sveitarinnar var líklega að öðru leyti hin sama og áður.
Tilburi starfaði til ársins 2007 en síðan hefur ekki spurst til sveitarinnar.