Neo (1956-65)

Neó tríóið 1957

Neo tríóið 1957

Hljómsveitin Neo (einnig stundum ritað Neó) starfaði á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, bæði hér heima og  erlendis Sveitin var ýmist tríó, kvartett eða jafnvel kvintett en hér verður hún einungis nefnd Neo til einföldunar.

Neo var líklega stofnuð 1956 (reyndar segir ein heimild sveitina hafa verið stofnaða 1945 en það er harla ósennilegt), ekki liggur fyrir hverjir skipuðu hana fyrsta veturinn en ein heimild greinir frá því að Kristinn Vilhelmsson hafi leikið á trommur í þeirri útgáfu og Haraldur Pálsson á harmonikku, óvíst er hvort eða hverjir aðrir skipuðu sveitina þá.

Á fyrstu árum Neo komu Ólafur Gaukur Þórhallsson og Hrafn Pálsson við sögu sveitarinnar, ekki liggur þó fyrir á hvaða tímapunkti það var – jafnvel væri hægt að ímynda sér að ofangreindur Haraldur Pálsson sé Hrafn Pálsson en þennan Harald er hvergi að finna annars staðar í fórum Glatkistunnar.

Sumarið 1957 var sveitin tríó sem Kristinn Vilhelmsson bassaleikari, Magnús Pétursson píanóleikari og Karl Lilliendahl gítarleikari skipuðu. Kristinn var alla tíð límið í sveitinni og hljómsveitarstjóri hennar og í raun má segja að Neo hafi verið margar hljómsveitir undir stjórn hans.

Neó tríóið 1959

Neo 1959

Tríóið var lengi húshljómsveit Leikhúskjallarans og á þessum fyrstu árum sungu ýmsir söngvarar með sveitinni, mestmegnis voru það erlendar söngkonur s.s. Valerie Shane, Yvett Guy, Jossie Pollard og Sussan Sorrel en einnig íslenskar söngkonur eins og Fjóla Karlsdóttir, einnig lék Neo undir á skemmtunum sem söngkonan Hallbjörg Bjarnadóttir var með. Þess má geta að tvö lög (Tóta litla og Á Sprengisandi) voru tekin upp flutt af Hallbjörgu og Neo, ætluð til útgáfu en upptökurnar týndust og voru aldrei gefnar út.

Sem fyrr segir var sveitin mis stór, vorið 1959 var tríóið orðið að kvintett skipað Kristni, Karli og Magnúsi auk þess sem Guðmundur R. Einarsson trommuleikari og Jónas Dagbjartsson fiðlu- og trompetleikari höfðu bæst í hópinn. Um haustið hafði aftur fækkað í hópnum um einn og þegar leið að jólum 1959 var Neo aftur orðið tríó. Sveitin lék á þeim tíma mikið í Lídó sem þá var nýbúið að opna.

1960 fór lítið fyrir sveitinni framan af ári en hún kom öflug aftur fram á sjónarsviðið um haustið, það voru Kristinn hljómsveitarstjóri, Gunnar Ingólfsson gítarleikari og Reynir Sigurðsson víbrafónleikari, síðar um haustið (í nóvember) hafði Kristinn skipt alveg um mannskap og þá voru í sveitinni Rúnar Georgsson saxófónleikari, Carl Möller píanóleikari og Pétur Östlund trommuleikari. Sigurdór Sigurdórsson var söngvari Neo um þetta leyti en einnig sungu Þorsteinn Eggertsson, Erlendur Svavarsson og Sigurður Johnny með sveitinni. Þennan vetur (1960-61) spilaði Neo mestmegnis í Vetrargarðinum, mannabreytingum var þó ekki alveg lokið þann veturinn því Ómar Axelsson tók við af Carli Möller við píanóið.

Um sumarið endurnýjaði Kristinn enn á ný mannskapinn og starfrækti nú tríó undir Neo nafninu, auk hans voru nú í sveitinni Grettir Björnsson harmonikkuleikari og Lárus Sveinsson gítar- og trompetleikari auk söngkonunnar Agnesar Ingvarsdóttur en þannig skipuð var sveitin húshljómsveit á Hótel Höfn á Siglufirði um sumarið. Þegar Haukur Sighvatsson trymbill hafði bæst í hópinn var Neo aftur orðið að kvartett.

Neo tríóið

Neo tríóið

Þegar sveitin hóf aftur að leika á höfuðborgarsvæðinu um haustið 1961 sem tríó var hún skipuð þeim Kristni, Karli og Magnúsi eins og hún hafði verið í byrjun, Hallbjörg Bjarnadóttir kom aftur til landsins til að skemmta og lék sveitin undir hjá henni en um veturinn var Neo fastráðin í Klúbbnum, Margit Calva söng með þeim lengstum.

Um sumarið 1962 fór sveitin í ballrúnt um norðanvert landið og var síðan á sínum stað á höfuðborgarsvæðum um veturinn, í lok ársins var Anna Vilhjálmsdóttir söngkona Neo en eftir áramótin voru það mestmegnis erlendar söngkonur sem sungu með sveitinni, s.s. Birgitte Falk, Gurly Ann og Milly Scott.

Enn voru hræringar með mannskapinn, um sumarið 1963 hættu Karl og Magnús og í kjölfarið endurstofnaði Kristinn sveitina í því skyni að fara til Danmerkur um haustið og reyna fyrir sér þar, Örn Ármannsson gítarleikari og Carl Möller píanóleikari tóku lausu sætin og Ragnar Bjarnason fór með sem söngvari sveitarinnar.

Neo átti síðan eftir að starfa það sem eftir var í Danmörku og reyndar einnig Þýskalandi, ekki er alveg ljóst hverjir skipuðu sveitina þar til sveitin hætti tveimur árum síðar en Jón Páll Bjarnason gítarleikari var í henni um tíma, kom inn þegar Ragnar söngvari hætti og Árni Scheving víbrafónleikari var einnig Neo-meðlimur um tíma. Einnig komu tveir Svíar við sögu Neo á þessu síðasta tímabili starfstíma sveitarinnar en nöfn þeirra eru ekki kunn.

Neo hætti líklega störfum haustið 1965, sveitin átti þó eftir að koma einu sinni enn fram en það var á fimmtíu ára afmælishátíð Félags íslenskra hljómlistarmanna vorið 1982.

Sex lög komu út með Neo á sínum tíma en sveitin lék undir á tveimur plötum Helenu Eyjólfsdóttur söngkonu, sem komu út á vegum Íslenzkra tóna 1958 og 59.

Efni á plötum