Stolið (1998-2011)

Stolið

Stolið

Saga hljómsveitarinnar Stolið er samofin sögu Soma sem starfaði 1996-98. Þegar sú sveit hætti störfum sumarið 1998 hélt kjarni hennar áfram að spila saman undir nafninu Hljóðnótt, sú útgáfa mun þó ekkert hafa komið fram opinberlega.

Þegar trymbill sveitarinnar hætti var ákveðið að breyta nafni sveitarinnar í Stolið eftir einu lagi sveitarinnar, sem þegar var búið að hljóðrita. Reyndar hafði annað lag borið nafnið Hljóðnótt.

Nýr trommuleikari, Huldar Freyr Arnarson, bættist í hópinn en aðrir meðlimir sveitarinnar voru þá fyrrum Soma-liðarnir Guðmundur Annas Árnason söngvari og gítarleikari, Snorri Gunnarsson gítarleikari og Kristinn Jón Arnarson bassaleikari.

Áfram vann Stolið að upptökum og var Valgeir Sigurðsson sveitinni þar mikilvægur, hann hljóðritaði efnið og hljóðblandaði auk þess að koma að útsetningum tónlistarinnar.

Platan sem hlaut nafnið, Allt tekur enda, kom út árið 2000 og lag/myndband samnefnt sveitinni fékk nokkra athygli fjölmiðla, sveitin fékk aukinheldur þokkalega dóma í Fókusi og Morgunblaðinu fyrir plötuna en hún þótti þó skorta hittara.

Stolið starfaði í nokkurn tíma eftir útgáfu plötunnar, og kom söngkonan og hljómborðsleikarinn Þóranna Dögg Björnsdóttir nokkuð við sögu sveitarinnar. Þannig skipuð lék sveitin m.a. á Iceland Airwaves hátíðinni 2001.

Það sama ár lagðist starfsemi sveitarinnar niður þegar hluti hennar fluttist erlendis en hún hætti þó aldrei störfum. Stolið hefur þannig komið nokkrum sinnum saman aftur, árið 2003 og aftur 2011. Þá hafði Huldar trommuleikari fært sig yfir á hljómborð og nýr meðlimur, Jón Gestur Sörtveit tekið við kjuðunum af honum. Um það leyti sendi sveitin frá sér nýtt lag sem vakti þó litla athygli.

2013 var mynduð ný sveit upp úr Stolið, hljómsveitin Slow montains.

Efni á plötum