Soma snýr aftur

Soma

Hljómsveitin Soma er komin fram á sjónarsviðið með nýtt lag eftir ríflega tuttugu ára pásu en ekkert hefur heyrst frá sveitinni síðan hún sendi frá sér lagið Náð árið 1998. Áður hafði Soma gefið út breiðskífuna Föl sem hlaut góðar viðtökur á sínum tíma, einkum lagið Grandi Vogar II sem naut töluverðra vinsælda og heyrist stöku sinnum ennþá leikið á ljósvakamiðlunum.

Soma sem kom saman aftur í fyrrasumar, sendi nú í vikunni frá sér nýtt lag, Fólk eins og fjöll sem hægt er að nálgast á Spotify og hyggja þeir félagar á tónleikahald um leið og það verður leyfilegt. Sveitin er jafnframt að vinna meira nýtt efni sem mun líta dagsins ljós á næstunni.

Meðlimir Soma eru þeir Guðmundur Annas Árnason söngvari, Kristinn Jón Arnarson bassaleikari, Snorri Gunnarsson gítarleikari, Halldór Sölvi Hrafnsson gítarleikari, Jónas Hlíðar Vilhelmsson trymbill og Þorlákur Lúðvíksson hljómborðsleikari, þeir hinir sömu og skipuðu sveitina á síðustu öld.

Fólk eins og fjöll á Spotify

Grandi Vogar II á Youtube