Sigrún Jónsdóttir [1] (1923-90)

Sigrún Jónsdóttir á Rangá

Sigrún Jónsdóttir á Rangá í Köldukinn var ein þeirra alþýðulistakvenna sem aldrei verður úr skorið um hvort hefði náð langt ef nám í sönglistinni og áhugi á frægð og frama hefði verið til staðar, þess í stað varð hún mikilvægur póstur í menningarlífi sveitar sinnar og varð reyndar svo fræg að gefa út eina sex laga smáskífu.

Sigrún Jónsdóttir var fædd haustið 1923 og ólst upp í Reykjadal en hún var af söngfólki komin og hlaut tónlistarlegt uppeldi, hún menntaði sig þó aldrei í söng þrátt fyrir að þykja mikið efni en kaus fremur bú- og húsmóðurstörf í Köldukinn í Ljósavatnshreppi í Suður-Þingeyjasýslu en hún giftist þangað og bjó ásamt eiginmanni og fimm börnum á bænum Rangá. Þess má og geta að tveir synir þeirra hjóna, Baldvin Kristinn og Baldur Baldvinssynir erfðu sönginn frá móður sinni, kölluðu sig Rangárbræður og gáfu m.a. út plötu undir því nafni auk þess sem sá fyrrnefndi hefur gefið út plötur í eigin nafni – hann er einmitt faðir Þráins Árna Baldvinssonar gítarleikara í Skálmöld og mörgum fleiri hljómsveitum.

Sigrún var áberandi í söng- og tónlistarlífinu í heimabyggð sinni, söng með kirkjukór Þóroddstaðarsóknar og kom jafnframt oft ein fram og söng á tónleikum og ýmsum skemmtunum á norðanverðu landinu, hún söng einnig mikið við jarðarfarir. Þegar hún var fimmtug söng hún nokkur lög í útvarpssal við undirleik Ólafs Vignis Albertssonar píanóleikara og í kjölfarið hafði fjölskylda hennar frumkvæði að því að gefa út sex laga plötu með sígildum einsöngslögum þar sem hún söng við undirleik Ólafs. Þótt útgáfan vekti ekki mikla athygli út fyrir hreppamörkin seldust fimm hundruð eintaka upplagið tiltölulega hratt upp og eru ekki mörg eintök af plötunni ennþá í umferð.

Sigrún á Rangá var eitthvað að koma fram og syngja fram á níunda áratuginn en hún lést sumarið 1990 á sextugasta og sjöunda aldursári sínu.

Efni á plötum