Sigurður Markan (1899-1973)

Sigurður Markan

Baritónsöngvarinn Sigurður Markan var af frægri tónlistarætt, bróðir Einars, Elísabetu og Maríu Markan sem öll voru þekktir söngvarar en Sigurður fetaði aldrei söngslóðina að neinu marki heldur hafði sönginn aðeins samhliða öðrum störfum.

Sigurður Einarsson Markan fæddist í Ólafsvík haustið 1899 en fjölskyldan fluttist til Reykjavíkur þegar hann var ellefu ára gamall. Ekki liggja fyrir upplýsingar um eiginlegt tónlistarnám hans hér á landi en hann fór ungur til Noregs og lærði þar eitthvað söng. Hann kom heim til Íslands um miðjan þriðja áratuginn ásamt norskri eiginkonu sinni, Ingrid Markan sem stundum var undirleikari hans á tónleikum.

Sigurður starfaði aldrei sem söngvari eða tónlistarmaður að aðalstarfi, var verkstjóri og síðar verslunarmaður en sinnti söngnum fyrst og fremst sem áhugamður, söng á tónleikum bæði einn og ásamt fleirum, tók m.a. þátt í uppfærslu á óperettusýningunni Meyjarskemmunni árið 1934 og óperunni Systurinni frá Prag sem almennt er sögð vera fyrsta óperuuppfærslan hér á landi, þá söng hann einnig t.d. einsöng með Karlakór Reykjavíkur á tónleikum.

Sigurður E. Markan

Árið 1930 var Sigurður einn af þeim fjölmörgu sem sungu inn á plötur í tilefni af því að erlendir upptökumenn á vegum Columbia og Fálkans komu hingað til lands en Alþingishátíðin á Þingvöllum var ástæða þeirra plötuupptaka auk þess sem Ríkisútvarpið var þá að taka til starfa. Sigurður söng sex lög við undirleik Franz Mixa, fimm þeirra komu út á tveimur plötum með honum einum en sjötta lagið var á plötu með Hreini Pálssyni og Óskari Norðmann. Tvö laganna komu út á safnplötunni Síðasta lag fyrir fréttir árið 1993.

Þrátt fyrir að Sigurður væri aldrei efnamaður var hann meðal „postulanna tólf“ sem svo voru kallaðir, sem komu að stofnun Tónlistarfélagsins í Reykjavík 1932 en það er enn starfandi og hefur komið að íslensku tónlistarlífi með ýmsum mikilvægum hætti um alla tíð.

Um miðja öldina var Sigurður alveg hættur að syngja, þau hjónin bjuggu um tíma í Noregi en komu aftur til Íslands 1962, hann virðist lítið hafa komið að tónlistarmálum síðari ár ævi sinnar utan þess að hann var fyrsti stjórnandi Stúdentakórsins sem stofnaður var 1963.

Sigurður E. Markan lést haustið 1973.

Efni á plötum