Austurstræti 1984

Austurstræti 1984
(Lag og texti: Sverrir Stormsker)

Skyggnið er ágætt, en hvort það er vor eða vetur,
veit ég eigi svo gjörla en frostið stingur.
Um Austurstræti ég eigra með hendur í vösum.
Ælugrænn staur sit allra síðasta syngur.

Á pulsubarnum bið ég um eina með rúsínu
og bæti því við til fróðleiks ég hlynntur sé rækjum.
Í röðinni‘ að baki mér heyri ég vínóða vinkarla
vaða elginn í rakalausum þvælum.

Fjörgömul múmía vafin í trefla og tuskur,
tíaur og tyggjó af strætinu kroppar með basli.
Stingur sér ofan í öskutunnur og kemur
svo upp úr með munninn fullan af alls konar drasli.

Fyrir mig gengur firna leiðinlegt slytti,
sem fýsir að vita hvort að ég sé ekki hress.
Ég tjái‘ honum að ég sé tímanum bundinn og ekki
tjói að drolla, á hlaupunum kalla ég bless.

Vonrúið hjálpræðisherkvendi málgagnið viðrar
á horninu‘ og býður nærstöddum syndabað.
En jafnvel skyggnir og sálrænir sjá hana ekki
og sjálfur lausnarinn felur sig bak við blað.

Nokkurra punda dvergpjatla stikar stuttum,
stefnir á Hressó, muldrandi einhver fræði.
En nubburinn hvorki nær upp í hurðarhúninn,
né nefnið á sér fyrir svellandi bræði.

Við apótekið úrillur blaðsali jarmar
einhverjar fréttir um stráka sem voru barðir,
samtímis því sem hann svæðið sitt ver og lumbrar
á söludrengjum sem gerast full aðgangsharðir.

Með vasadiskó vitvana örverpi hjólhestar,
virðir fyrir sér glyðrur í máttfirrtri von.
Afvegaleiðist og hafnar með útriðið hjólhrossið
í hrúgu í ritfangadeildinni‘ í Eymundsson.

Af einhverjum ástæðum sólin lætur sjá sig
og samstundis affatast margmennið brosleitt á brá.
Á Fróni skal altíða fara með regnskjöld í geislabað.
Ég flý inn í næstu búð, því nú skellur það á.

Stormur, þindarlaust úrfelli, þrumur og eldingar.
Ekki er útlit fyrir að veðrinu batni.
Ég bið fyrir guði, þeim geðstirða heiftmögri klakans,
sem getur, að því er virðist, ei haldið vatni.

Með rokið í fangið og bakið og hliðarnar báðar
berst ég mót straumnum, sem óðum vaxandi fer.
En ljóðyrkjumaðurinn Tómas hugfanginn horfir
harðlæstum augum á fegurð sem enginn sér.

Ég örmagna, frónkaldur, allur brotinn og bramlaður
berst með straumnum, með krumpaða fætur og fingur
um Austurstræti, í átt að hriplekum skýjunum.
Ælugræn stytta sitt allra síðasta syngur.
 
[af plötunni Sverrir Stormsker – Glens er ekkert grín]