Glens er ekkert grín
(Lag og texti: Sverrir Stormsker)
Gjarnt er mönnum gáfnatregum
að gleyma sér við skens
og líta aldrei alvarlegum
augum á spaug og glens.
Þegar ég sé ánægt fólk,
hreint ákaflega sælt,
þá gæti ég í gremju minni
gubbað, nú eða ælt.
Já, gjarnt er háðskum heimskingjum
að hafa allt í flimtingum;
Hin jákvæðustu mál
og jafnvel mannsins sál.
Öllum sposkum spaugurum
ég spyrni á öskuhaug.
Að grínast mjög með glens og spé
getur verið dýrt spaug.
Börnin alast upp við spé,
en ættu að gæta sín
því grín er ekkert gamanmál
og gamanmál ekkert grín.
Það ætti að banna brandara
og banna háð og spott
og allan hlátur yfirleitt
og afmá sérhvert glott.
Já allt er grínið ægilegt
og engan veginn hlægilegt.
Já glens er ekkert grín
og grín er ekkert spaug.
Ég hata alla háðfugla,
þeim hendi á öskuhaug.
Að grínast mjög með glens og spé
getur verið dýrt spaug.
Að eigin fyndni heimsku hlær
og hefur af annarra gaman.
En heimskastur er hrímþursinn
sem hlær að öllu saman.
Já gjarnt er háðskum heimskingjum,
já gjarnt er heimskum háðfuglum
að gera að öllu grín
og geta‘ ei skammast sín.
Óforskömmuð illfygli
alltaf hlæja mest.
En sá hlær vel sem sjaldan hlær.
Sútin hún er best.
Því hláturinn er hlálegur,
sem húmor, gleði og stuð.
Alvaran og ábyrgðin
er minn sanni guð.
[af plötunni Sverrir Stormsker – Glens er ekkert grín]