Samúð

Samúð
(Lag / texti: Guðrún Elín Ólafsdóttir / Sverrir Stormsker)

Já þetta vetrarkvöld er drungalegt og dimmt,
það deginum er ljósara.
Og út í gaddinum þar geta fáir skrimmt:
Ég greini í trjánum fuglana.

Ó bíbagreyin, þá er ekki sjón að sjá,
þeir sífra í garðinum hjá mér.
Ég þríf í byssu mína og bauna grimmt á þá.
Þeir brotna í mola eins og gler.

Ég elska fuglana og finn svo til með þeim.
Mér finnst svo sárt að sjá þá fjúka út í geim,
í milljón vindstigum og viðbjóðslegri frosthörku,
því vil ég koma þeim í annan, betri heim.

Ó enga von á þessi fiðurfénaður,
sem fer á ókostum með söng,
því sæki ég vélbyssuna sallarólegur
og salla‘ hann niður kvöldin löng.

Ég elska fuglana og finn svo til með þeim.
Mér finnst svo sárt að sjá þá fjúka út í geim,
í milljón vindstigum og viðbjóðslegri frosthörku,
því vil ég koma þeim í annan, betri heim.

Ég sit í leðurstól og staupa mig á mjólk
og stari út um gluggann minn
á veðurbarið, ískalt fyrirmyndafólk.
Ég fer og næ í riffilinn.

Ég elska fólkið allt og finn svo til með því.
Mér finnst svo sárt að sjá það verða fyrir bí,
í milljón vindstigum og viðbjóðslegum hávaða‘ og látum,
því vil ég láta það heyra himneskt dirrindí.

[af plötunni Sverrir Stormsker – Glens er ekkert grín]