Afmælisbörn 30. nóvember 2021

Höskuldur Lárusson

Afmælisbörn Glatkistunnar eru fimm á þessum degi:

Pálína Vagnsdóttir söngkona frá Bolungarvík er fimmtíu og sjö ára gömul, hún er af mikilli tónlistarfjölskyldu frá Bolungarvík, söng m.a. með hljómsveitinni Septu og hefur sungið inn á nokkrar plötur, þar má nefna plötuna Hönd í hönd: uppáhalds lögin hans pabba, sem hún og systkini hennar gáfu út 1991 undir nafninu Vagnsbörn, til minningar um föður þeirra.

Höskuldur Örn Lárusson fyrrum söngvari og gítarleikari Spoon er fimmtíu og tveggja ára gamall í dag. Spoon átti lög eins og Tomorrow og Taboo sem áttu vinsældum að fagna en Höskuldur samdi einmitt þau lög. Hann hefur verið í fjölmörgum öðrum hljómsveitum og má þar m.a. nefna Mikka ref, Munka í meirihluta, Lemon og Low/Mid/High.

Baldur Már Arngrímsson gítarleikari og upptökumaður er sjötíu og átta ára í dag. Hann hefur leikið með ótal hljómsveitum s.s. Mannakornum, Blúskompaníinu, J.J. quintet, Lísu, Lúdó sextett, Experiment og Heiðursmönnum, en einnig leikið inn á og starfað við upptökur á fleiri tugum platna annarra tónlistarmanna og hljómsveita.

Sigurður Markan söngvari (1899-1973) átti afmæli á þessum degi, hann söng inn á nokkrar 78 snúninga plötur árið 1930 þegar upptökumenn á vegum Columbia komu hingað til lands og tóku upp fjöldann allan af plötum.

Einnig hefði Halldór Fannar Ellertsson söngvari og hljómborðsleikari (Röðlar, Straumar, Fjötrar, 3. hæðin o.fl.) (f. 1950) átt afmæli á þessum degi en hann lést 1996. Tvö lög komu út á safnplötunni SATT 1 árið 1984 með Halldóri Fannari.

Vissir þú að Skapti Ólafsson söngvari söng eitt sinn jólalög á förnum vegi við undirleik leikarans Ingvars E. Sigurðssonar sem lék á harmonikku?