Afmælisbörn 5. desember 2021

Lýður Árnason

Þá er komið að afmælisbörnum Glatkistunnar en að þessu sinni eru tvö slík á skrá:

Lýður Árnason læknir og tónlistarmaður frá Flateyri er fimmtíu og níu ára gamall, hann hefur komið víða við á tónlistarferli sínum, verið í hljómsveitum á borð við Kartöflumúsunum, Vítamíni, Grjóthruni í Hólahreppi og Göglum svo fáeinar séu nefndar. Hann var einnig viðloðandi Karlrembuplötuna sem kom út fyrir um fimmtán árum og vakti athygli.

Þá hefði Svala Nielsen óperusöngkona einnig átt afmæli í dag en hún lést árið 2016. Svala fæddist 1932, nam söng fyrst hér heima en síðan á Ítalíu og í Þýskalandi, hún söng síðar ýmis óperuhlutverk, með Einsöngvarakórnum en einnig sem einsöngvari á tónleikum, t.d. með Karlakór Reykjavíkur, bæði hér heima og erlendis. Söng hennar má heyra á mörgum plötum en hún gaf einnig sjálf út eina einsöngsplötu 1976.

Vissir þú að Margrét Edda Gnarr fitness drottning og dóttir Jóns Gnarr söng á barnaplötu Dr. Gunna Abbababb?