Afmælisbörn 21. desember 2021

Pétur Á. Jónsson óperusöngvari

Afmælisbörnin í tónlistargeiranum eru þrjú talsins í dag:

Pétur Grétarsson slagverksleikari er sextíu og þriggja ára gamall í dag, hann hefur mest tengst djassgeiranum en hefur þó leikið með ýmsum öðrum sveitum. Þar má til dæmis nefna Stórsveit Reykjavíkur, Tarzan, Síðan skein sól, Arnald og kameldýrin, Karnival, Havanabandið og Smartband. Pétur hefur mikið starfað við kvikmyndir og leikhús, og leikið á hinar ýmsu plötur sem sessionleikari. Hann hefur ennfremur annast dagskrárgerð í útvarpi.

Regína Ósk Óskarsdóttir söngkona er fjörutíu og fjögurra ára gömul í dag. Hún vakti fyrst athygli í hljómsveitinni Áttavillt og Söngsystrum en áður hafði hún verið í Doríu og fleiri sveitum. Í seinni tíð hefur henni brugðið fyrir í Nova, Eurobandinu og Frostrósum en hún hefur einnig gefið út sólóplötur og sungið á plötum annarra tónlistarmanna. Regína er þekktust í dag fyrir Eurovision framlag sitt en hún hefur einnig sungið í Landslaginu, Ljósalaginu og öðrum smærri söngkeppnum.

Pétur (Árni) Jónsson óperusöngvari (1884-1956) hefði átt afmæli þennan dag en hans er í dag minnst sem þess Íslendings sem fyrstur gaf út plötu (árið 1910). Pétur gaf út á sjötta tug 78 snúninga platna en hann starfaði lengst af í Þýskalandi.

Vissir þú að jólaplatan Gáttaþefur í glöðum hópi með Ómari Ragnarssyni kom út með þremur mismunandi plötuumslögum?