Pétur Á. Jónsson (1884-1956)

Pétur Á. Jónsson óperusöngvari4

Pétur Á. Jónsson

Pétur Á. Jónsson óperusöngvari var fyrstur Íslendinga til að syngja inn á plötur og átti aukinheldur farsælan söngferil í Þýskalandi, aðstæður í heimsmálum urðu til þess að hann fluttist heim mun fyrr en ella hefði orðið.

Pétur (Árni) Jónsson fæddist í Reykjavík 1884 og var af söngelsku fólki kominn. Hann þótti snemma liðtækur og efnilegur söngvari og strax á fyrsta skólaári í Lærða skólanum var hann fenginn til að syngja með kór eldri nemenda.

Pétur var í raun efnispiltur að öllu leyti, var góður námsmaður, efnilegur söngmaður og mikill íþróttamaður og var einn af stofnendum Fótboltafélags Reykjavíkur sem síðar hlaut nafnið Knattspyrnufélag Reykjavíkur (KR), þannig að honum stóðu ýmsar leiðir til boða.

Að loknu stúdentsprófi 1906 fór Pétur til Kaupmannahafnar, lagði þar í fyrstu stund á heimspeki en síðan tannlækningar sem hann áætlaði að klára og starfa síðan við hér heima að námi loknu. Hann var þá farinn að syngja nokkuð á opinberum vettvangi og í fríum sínum hér heima söng hann til að mynda einsöng með kór sem settur var á laggirnar fyrir konungskomuna 1907 þegar Friðrik VIII heimsótti Ísland, tveimur árum síðar söng hann Konungskantötu Þorsteins Gíslasonar í Danmörku, m.a. fyrir konungshjónin, og hlaut fyrir ágæta dóma.

Námsplönin runnu smám saman út í sandinn og sumarið 1910 gekk Pétur í Óperuskóla Konunglega leikhússins í Kaupmannahöfn, fyrst samhliða tannlæknanáminu en þegar hann hætti í því 1911 sneri hann sér heill og óskiptur að söngnáminu. Meðan á því stóð fór hann m.a. til Bandaríkjanna og söng þar með kór sem var starfandi í skólanum en það var í eina skiptið sem hann söng þar í landi.

Á Kaupmannahafnarárum Péturs voru fyrstu plöturnar með honum teknar upp, það voru jafnframt fyrstu plötur með íslenskum flytjendum sem út komu en það var árið 1910, lengi var talið að plöturnar hefðu komið út þremur árum fyrr (og svo segir t.a.m. í Hljóðritaskrá e. Jón R. Kristjánsson sem kom út 1955) en hið rétta er að þær komu út 1910 og 11 og voru hljóðritaðar í Kaupmannahöfn í ágúst 1910, þær bárust hingað til lands í upphafi árs 1911. Plötur sem komu út eftir það voru teknar flestar upp í Þýskalandi þar sem Pétur starfaði síðan.

Pétur Á. Jónsson 1908

Pétur Á. Jónsson árið 1908

Alls voru plöturnar í Danmörku fjórar talsins og innihéldu aðeins eitt lag hver, sú fyrsta lagið Dalvísur en sú plata hafði að geyma útgáfunúmerið GCR-282081 (Grammophone concert records) og var gefin út Fálkanum hérlendis reyndar eins og allar hans plötur framan af en síðari 78 snúninga plötur Péturs voru gefnar út af Hljóðfærahúsi Reykjavíkur. Af fyrstu plötunni munu einungis vera til tvö eintök af í dag.

Í heildina komu út með honum á sjötta tug platna, af því er talið er. Mestmegnis var um að ræða íslensk einsöngslög og óperutónlist en síðar slæddist inn fyrsta dægurlagið sem kom út með íslenskum flytjanda, lagið Sonny boy. Pétur var þó alltaf fyrst og fremst óperusöngvari og telst platan því vart vera dægurlagaplata.

Eitthvað af efni með Pétri var tekið upp í London 1914 en þær upptökur munu hafa eyðilagst í heimsstyrjöldinni fyrri sem skall á örskömmu síðar, það munu hafa verið bestu upptökurnar sem gerðar voru með söng Péturs. Sagan segir ennfremur að Pétur hafi sungið inn á vaxhólk sem síðan var fjöldaframleiddur, ef það reynist rétt var um fyrstu slíku íslensku útgáfuna að ræða.

Nokkrar af þeim plötum sem komu út 1930 voru teknar upp á Íslandi en þá um sumarið komu hingað til lands upptökumenn á vegum Columbia til að taka upp efni í tilefni af Alþingishátíðinni sem þá var haldin á Þingvöllum, það voru fyrstu plötuupptökurnar sem gerðar voru hér á landi.

Haustið 1912 hóf Pétur störf hjá Kurfürstendamm óperunni í Berlín í Þýskalandi og starfaði þar í tvö ár en færði sig þá um set og réðist til Borgarleikhússins í Kiel 1914 en þar átti hann eftir að starfa næstu fjögur árin við gott orðspor sem fór sífellt vaxandi. Haustið 1918 gekk hann síðan til liðs við óperuna í Darmstadt þar sem hann starfaði næstu fjögur árin en þá flutti hann aftur til Berlínar þar sem hann hafði fyrst starfað, í þetta skiptið réði hann sig til Deutsches Opernhaus sem var eitt stærsta óperuhús landsins.

Enn átti Pétur eftir að vera í Þýskalandi í nokkur ár, eftir tvö ár í viðbót í Berlín var farið að þrengja að eftir stríðsárin á undan og þegar farið var að kreppa að lista- og menningarlífi í borginni færði Pétur sig yfir til Bremen 1924 þar sem ástandið var heldur skárra en heimskreppan var þá yfirvofandi.

Pétur Á. Jónsson óperusöngvari2

Pétur í einu óperuhlutverka sinna

Í Bremen átti Pétur eftir að vera næstu fimm árin við góðan orðstír, veikindi settu reyndar strik í reikninginn um nokkurra mánaða skeið árið 1926 en hann jafnaði sig brátt á þeim. Nasisminn hóf innreið sína á þessum árum og svo fór að Pétur ákvað að syngja einungis lausráðin hlutverk.

Hann kom iðulega heim til Íslands í fríum sínum og hélt hér tónleika en aðrir óperusöngvarar í Þýskalandi nýttu tíma sinn betur í fríum og mynduðu sambönd við bandaríska umboðsmenn sem herjuðu nokkuð á óperuheiminn. Það varð meðal annars til þess að þegar heimskreppan skall á af fullum þunga gátu margir þeirra leitað til starfa í Bandaríkjunum ólíkt Pétri sem neyddist til að flytja heim til Íslands í árslok 1932 þar sem hann hafði ekki vonir um óperuhlutverk í Þýskalandi eða öðrum Evrópulöndum að svo stöddu, ekki bætti heldur ástandið að Hitler var að komast til valda í landinu. Það var þó alltaf ætlunin að fara aftur utan fljótlega aftur.

En Pétur fór aldrei aftur út, hér heima á Íslandi hóf hann störf hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og átti eftir að starfa þar í tvo áratugi. Samhliða því starfaði hann við söngkennslu, kenndi m.a. Guðmundi Jónssyni, Sigurði Ólafssyni, Einari Sturlusyni, Sigfúsi Halldórssyni, Sigurði Björnssyni, Katli Jenssyni, Magnúsi Jónssyni og Jóni Múla Árnasyni, svo fáein nöfn séu nefnd. Hann hélt reglulega tónleika og söng einnig við ýmis hátíðleg tækifæri s.s. á lýðveldishátíðinni 1944.

Pétur lést 1956 en hann hafði þá verið blindur um skeið af völdum sykursýki. Tveimur árum áður hafði ævisaga komið út, Pétur Jónsson óperusöngvari, en hún var skráð af Björgúlfi Ólafssyni lækni.

Ferill Péturs var hreint ótrúlegur á sínum tíma, hann naut mikillar velgengni og vinsælda í Þýskalandi og var í raun frægur þar í landi á mælikvarða þess tíma. Hann söng öll helstu óperuhlutverkin, m.a. í Aidu, Rigoletto, Il trovatore og Carmen svo nokkur dæmi séu tekin. Hér heima hlaut hann fálkaorðuna og var útnefndur heiðursfélagi Félags íslenskra einsöngvara fyrstur manna.

Sem fyrr segir komu út ógrynni platna með Pétri, alls urðu 78 snúninga plöturnar fimmtíu og þrjár (af því að talið er) en söng hans má einnig finna á safnplötunni Gullöld íslenzkra söngvar: The golden age of Icelandic singers, sem Fálkinn gaf út 1962. Þá kom út tvöföld plata á vegum Steinar árið 1989 með söng Péturs, hún hlaut titilinn Pétur Á Jónsson 1884 – 1956: Frumherjinn, hljóðritanir frá 1907 – 1944.

Efni á plötum