Skurk (1988-93 / 2011-)

Skurk

Rokksveitin Skurk frá Akureyri hefur starfað frá því undir lok níunda áratugar síðustu aldar en þó langt frá því samfellt, sveitin var endurreist á nýrri öld eftir hátt í tveggja áratuga hlé en hefur á síðara starfsskeiði sínu sent frá sér tvær skífur.

Skurk var angi af mikilli rokkbylgju eða vakningu sem gekk yfir norðanvert landið í kringum 1990 og reyndar hafði þá sams konar bylgja verið í gangi sunnan heiða. Þessi norðlenska vakning leiddi af sér fjölda hljómveita sem spilaði rokk í þyngri kantinum, sem rottuðu sig gjarnan saman og héldu tónleika – mest á Akureyri en einnig var hljómsveitum smalað í rútur og haldnir tónleikar í nágrannabyggðalögum eins og Húsavík og Sauðárkróki.

Skurk var stofnuð að öllum líkindum um haustið 1988 en fljótlega eftir áramótin 1988-89 lék hún á tónleikum ásamt fleiri sveitum í Borgarbíói á Akureyri. Ekki er að full ljóst hverjir skipuðu sveitina að öllu leyti fyrsta misserið, kjarna hennar mynduðu lengst af þeir Hjörleifur Árnason trommuleikari, Guðni Konráðsson gítarleikari, Páll Steindór Steindórsson söngvari, Hörður Halldórsson gítarleikari og Jón Heiðar Rúnarsson bassaleikari, Páll gæti einnig hafa leikið á bassa um tíma áður en Jón Heiðar kom til sögunnar. Fleiri munu hafa komið við sögu Skurks, t.a.m. var Hrafn Stefánsson fyrsti bassaleikari sveitarinnar og einnig gæti Agnar Daníelsson hafa leikið á bassa í henni einnig – fleiri gætu hafa komið við sögu sveitarinnar en sami liðskjarni hafði áður skipað sveitir eins og Fire og Wanted.

Skurk lék töluvert á tónleikum á árunum 1990 til 93 og eins og fyrr segir var það mestmegnis í samstarfi við aðrar norðlenskar sveitir á svipuðum nótum, það var þó ekki fyrr en um sumarið 1993 sem sveitin kom suður yfir heiðar og lék þá á óháðu listahátíðinni Ólétt ´93, skömmu síðar lognaðist hún útaf enda var þá rokkbylgjan að mestu hjöðnuð í bili. Á þessu fyrra starfstímabili Skurks gaf sveitin ekkert út en þeir félagar höfðu flutt heilmikið af frumsömdu efni á tónleikum sínum og eitthvað af því er varðveitt myndbandaformi á Youtube, þar er einnig að finna ábreiðuútgáfu af jólalaginu Snow is falling (Snjókorn falla) með frumsömdum texta undir titlinum Víxlar falla.

Skurk 2017

Ekkert spurðist til sveitarinnar um árabil, hún var flestum gleymd en þeir félagar byrjuðu aftur eftir langt hlé árið 2011, líklega um haustið. Þeir Skurk-liðar höfðu hægt um sig til að byrja með en vorið 2012 léku þeir í fyrsta sinn opinberlega í nítján ár þegar þeir tróðu upp ásamt hljómsveitunum Dánarbeði og Skálmöld á Sportvitanum á Akureyri en síðarnefnda sveitin var þá farin að vekja nokkra athygli. Skurk var þarna skipuð Guðna gítarleikara sem hafði þarna tekið við söngnum af Páli, Hjörleifi trymbli, Herði gítarleikara og Jóni Heiðari bassaleikara. Þótt Páll væri ekki með í endurreisn sveitarinnar tók hann þó lagið með þeim félögum á Sportvitanum.

Þar með var tónninn sleginn og sveitin fór á fullt skrið í spilamennsku á nýjan leik, þungt rokk var nú aftur orðið inn, einkum meðal miðaldra karlmanna og sveitir eins og Dimma, Sólstafir og Skálmöld nutu jafnvel almennra vinsælda. Stærri tónleikavettvangur beið sveitarinnar en áður, afmælistónleikar í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrar og málmrokkshátíðin Fjandinn – Kice voru meðal tónleika sem sveitin kom fram á, nýtt efni var þá á dagskrá sveitarinnar.

Hjörleifur trommuleikari hætti í Skurk árið 2012 og tók Þorvaldur Yngvi Schiöth við af honum en var ekki lengi bak við settið og tók Kristján B. Heiðarsson sæti hans haustið 2013. Þá um sumarið hafði Páll fyrri söngvari sveitarinnar látið lífið í flugslysi og hugsanlega átti það sinn þátt í að sveitin hljóðritaði sex laga plötu með eldra efni sveitarinnar, sem eins konar uppgjör við fyrra starfstímabil hennar frá árunum 1988-93. Platan sem bar heitið Final gift kom út sumarið 2014 og var tileinkuð minningu Páls, upplag hennar var fimm hundruð eintök en hún var gefin út á vegum Inconsistency records.

Skurk lék á Gauki á Stöng um það leyti sem platan var að koma út og til stóð að fylgja henni eftir með frekari spilamennsku en sveitin varð þá fyrir því áfalli að Guðni söngvari og gítarleikari fótbrotnaði illa og ekkert varð úr tónleikahaldi í kjölfarið.

Skurk

Í stað þess að leggjast í kör fóru þeir Skurk-liðar þess í stað að vinna að næstu plötu og smám saman varð ljóst að hún var að þróast yfir í risastórt verkefni. Til að fjármagna plötuna notuðu þeir vefmiðilinn Karolina Fund og þar gekk söfnunin vonum framar og veitti ekki af því þegar upp var staðið eftir tveggja ára þrotlausa vinnu höfðu um þrjátíu manns komið að plötunni, hún var unnin að nokkru leyti í samstarfi við Daníel Þorsteinsson tónskáld og Tónlistarskólann á Akureyri en þaðan komu bæði strengjasveit og kór sem léku og sungu á plötunni – einnig sungu þau Björgvin Sigurðsson (Skálmöld), Þórhildur Örvarsdóttir og Kristel Nótt Steinarsdóttir á henni. Þá gerðu Skurk-liðar samhliða vinnslu plötunnar eins konar heimildarmynd sem þeir settu á Youtube en þar má sjá þróunarferli hennar í máli og myndum.

Í millitíðinni spilaði Skurk nokkuð á tónleikum, m.a. á Eistnaflugi og kom gamli rokkhundurinn Eiríkur Hauksson fram með sveitinni á tónleikum. Sveitin sendi einnig frá sér efni á þessum tíma, þar má nefna nýja útgáfu af laginu Gaggó Vest með þeim Val Frey Halldórssyni úr Hvanndalsbræðrum og Magna Ásgeirssyni úr Á móti sól sem gestasöngvurum en þar var Björgvin Skálmaldar-söngvari í gervi kennarans, einnig átti sveitin lag í kvikmyndinni Fúsi en þar var á ferð lagið Darkness af Final gift plötunni.

Platan sem hlaut nafnið Blóðbragð kom loks út vorið 2017 en nokkrar tafir höfðu þá orðið á útgáfu hennar, fyrsta upplagið var gallað og því þurfti að fá nýtt upplag til landsins. Plötunni fylgdi Skurk eftir með tónleikahaldi um sumarið en fór svo í pásu um nokkurt skeið. Sveitin hefur svo verið að vakna til lífsins á allra síðustu árum en lítið hefur verið um tónleikahald sökum Covid heimsfaraldursins. Skurk virðist því hvergi nærri hætt.

Efni á plötum