Slagarasveitin (1986-)

Slagarasveitin

Slagarasveitin er hljómsveit sem hefur verið starfrækt frá því um miðjan níunda áratug síðustu aldar. Upphaflega starfaði hún á Hvammstanga en hefur á síðustu árum gert út frá höfuðborgarsvæðinu, sveitin hefur þó fjarri því starfað samfleytt og áður en meðlimir hennar fóru á fullt skrið aftur var hún í fimmtán ára pásu þar á undan.

Slagarasveitin var stofnuð haustið 1986 og hafa þrír meðlimir hennar verið í sveitinni frá upphafi, þeir Geir Karlsson bassaleikari, Ragnar Karl Ingason gítarleikari og Skúli Þórðarason trommuleikari en á síðustu árum hafa þeir Stefán Ólafsson gítarleikari og Valdimar Gunnlaugsson söngvari bæst í hópinn, reyndar syngja þeir allir. Á árum áður komu fleiri við sögu sveitarinnar en upplýsingar er ekki að finna um þá – af meðfylgjandi mynd að dæma gat hún verið nokkuð fjölmenn, stundum leið þónokkur tími á milli þess sem sveitin kom saman hér fyrrum.

Slagarasveitin 2019

Þegar Slagarasveitin hóf samstarf á nýjan leik hófu þeir að vinna með frumsamið efni og haustið 2019 sendi sveitin frá sér sitt fyrsta lag, Sæludalur en það heyrðist eitthvað leikið á útvarpsstöðvum landsins og komst inn á vinsældalista Rásar 2. Síðan þá hafa komið út nokkur lög í viðbót sem finna má á Spotify en sveitin hefur síðustu árin jafnframt unnið að upptökum á plötu og er því í fullu fjöri.