Snörurnar (1996-2007)

Snörurnar

Sönghópurinn Snörurnar var áberandi undir lok síðustu aldar og tengdist línudansvakningu sem varð hér á landi um það leyti, þær stöllur gáfu út tvær plötur og meiningin hefur alltaf verið að gefa þá þriðju út.

Það voru söngkonurnar Eva Ásrún Albertsdóttir, Erna Þórarinsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir sem hófu samstarf sumarið 1996 undir nafninu Snörurnar en þær höfðu þá gengið með þá hugmynd í maganum um tíma. Þær voru allar kunnar söngkonur, höfðu margoft sungið í Eurovision undankeppnunum og kölluðu sig stundum í gríni Ríkisraddirnar vegna þess hve oft þær birtust á skjá Ríkissjónvarpsins í Eurovision. Snörurnar sendu frá sér plötu um haustið og þá fyrst birtust þær almenningi.

Platan sem þær gáfu sjálfar út bar nafn tríósins og hafði að geyma tíu lög, flest erlend og meðal þeirra var að finna lagið Kveiktu ljós sem Blandaður kvartett frá Siglufirði hafði gert sígilt um þrjátíu árum fyrr – einnig var á plötunni eitt nýtt og frumsamið lag eftir Magnús Eiríksson. Platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu, DV og Degi Tímanum.

Tónlistin var í kántrístíl og í kjölfar þess að platan kom út hófu Snörurnar samstarf við dansarann Jóhann Örn Ólafsson og komu þau stundum fram saman með blöndu tónlistar og danskennslu, línudans en hann var þá nokkuð í tísku og áttu Snörurnar e.t.v. sinn þátt í þeirri vakningu. Þær komu töluvert fram á skemmtunum á Hótel Íslandi fram að áramótum 1996-97 og á nýju ári fóru þær víða um land, m.a. til Akureyrar og Keflavíkur með tónlist og dans.

Snörurnar voru meira og minna virkar allt árið 1997 og voru t.a.m. meðal skemmtiatriða á Halló Akureyri fyrir norðan um verslunarmannahelgina, að henni lokinni tóku þær pásu sem þær nýttu til að hljóðrita nýja plötu og þegar þær sneru aftur um haustið hafði Helga Möller tekið sæti Guðrúnar sem átti ekki heimangegnt. Nýja plata kom út í nóvember og bar heitið Eitt augnablik en sú plata var allt öðruvísi upp byggð en fyrri platan, þ.e. mun blandaðri með gömul og þekkt lög í bland við ný – og miklu minna kántrí. Eitt augnablik fékk eins og fyrri platan ágæta dóma bæði í Morgunblaðinu og Degi. Hluti af söluhagnaði plötunnar rann til styrktar rannsóknum á sykursýki og æðasjúkdómum.

Snörurnar sungu heilmikið opinberlega í kjölfar útgáfu plötu sinnar en komu við sögu einnig á annarri plötu fyrir þessi jól, plötu Geirmundar Valtýssonar – Bros.

Eftir stutt hlé birtust Snörurnar aftur í febrúar 1998 og sungu þá m.a. á styrktartónleikum fyrir Hallbjörn Hjartarson en Kántrýbær á Skagaströnd hafði þá brunnið nokkru fyrr, þær voru heilmikið að syngja þetta árið og í desember komu þær við sögu á jólaplötunni Jólasveinarnir okkar – allir sem einn.

Eftir það komu Snörurnar stopulla fram, birtust aftur um sumarið 2000, sungu þá m.a. á bæjarhátíð á Sauðárkróki og svo á kántríhátíð á Skagaströnd og voru um tíma í samkrulli með hljómsveitinni Gildrunni. Minna fór fyrir þeim upp frá því, þær sungu aftur haustið 2002 á plötu Geirmundar – Alltaf eitthvað nýtt og um tíma virðist sem Berglind Björk Jónasdóttir hafi sungið með þeim Helgu og Guðrúnu en Erna og Eva Ásrún voru þá víðs fjarri.

Sumarið 2005 bauðst Snörunum að skemmta á risafestivali í Noregi þar sem kántrí var í hávegum haft og þangað fóru þær Helga, Eva Ásrún og Erna með sex manna hljómsveit með sér héðan. Enn voru þær eitthvað að syngja árið 2007 en svo virðist sem þær hafi ekki starfað saman síðan. Þær hafa þó nefnt í blaðaviðtölum að enn sé von á plötu frá þeim.

Efni á plötum