Soðin fiðla (1996-98)

Soðin fiðla

Soðin fiðla er einna þekktust fyrir að sigra Músíktilraunir Tónabæjar en fylgdi þeim sigri ekki eftir með neinni flugeldasýningu, sveitin sendi þó frá sér eina stuttskífu.

Sveitin var stofnuð haustið 1996 í Kópavogi og voru meðlimir hennar Arnar Snær Davíðsson gítarleikari, Egill Tómasson gítarleikari og söngvari, Gunnar Örn Svavarsson bassaleikari og Ari Þorgeir Steinarsson trommuleikari. Þannig skipuð tók sveitin þátt í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1997 þar sem hún komst í úrslit og reyndar gott betur því sveitin sigraði tilraunirnar með glans, og hlaut jafnframt verðlaun fyrir besta trommuleikarann (Ari), besta gítarleikarann (Egil) og besta bassaleikarann (Gunnar).

Soðin fiðla fór á fullt strax eftir sigurinn með því að spila víða um borg um vorið og reyndar víðar en það því sveitin var meðal nokkurra rokksveita sem héldu sveitaball í Njálsbúð um sumarið. Um vorið hafði sveitin hljóðritað eitt lag, Fyrirmynd, sem var nokkuð spilað á útvarpsstöðvunum og komst m.a. á vinsældalista X-sins. Sveitin var á fullu við spilamennsku fram yfir mitt sumar þegar þeir félagar fóru í Stúdíó Núlist til að hljóðrita plötu, þar sem Jón Þór Birgisson – síðar kenndur við Sigur rós, réði ríkjum, hann söng m.a. eitt lag á plötunni en á henni nutu þeir einnig aðstoðar Völu Gestsdóttur fiðluleikara.

Soðin fiðla á útgáfutónleikum

Um haustið kom síðan út sex laga stuttskífa undir titlinum Ástæðan fundin sem var hluti af útgáfuröðinni Skært lúðrar hljómar hjá Smekkleysu, platan hlaut ágæta dóma blaðaskríbenta, bæði hjá Morgunblaðinu og Degi. Sveitin fylgdi plötunni heilmikið eftir með spilamennsku um haustið 1997 og höfðu þeir félagar um það leyti sem platan kom út samið heilmikið efni í viðbót á nýja plötu en það var allt öðruvísi en það sem rataði á stuttskífuna. Svo virðist sem sveitinni hafi bæst liðsstyrkur um það leyti sem platan kom út, það var hljómborðsleikarinn Ágúst Einar Arnarsson og heimildir herma jafnframt að Vala hafi verið meðlimur sveitarinnar einnig um tíma.

Soðin fiðla

Á nýju ári stefndi allt í að sveitin myndi halda áfram á svipuðu róli, hún hlaut tilnefningu sem bjartasta vonin á Íslensku tónlistarverðlaununum sem þeir félagar unnu reyndar ekki. Um vorið 1998 fór Soðin fiðla í pásu yfir sumarið þar sem einn meðlima hennar ætlaði þá að dveljast erlendis, um það leyti mun Júlía Sigurðardóttir söngkona hafa gengið til liðs við sveitina. Ekkert heyrðist hins vegar til Soðinnar fiðlu eftir það og tók sveitin ekki aftur til starfa mörgum til sárra vonbrigða. Eftir hana liggur þó minning um sigur í Músíktilraunum og ein sex laga plata.

Efni á plötum