Tjalz Gissur (1990-96)

Tjalz Gizur

Tjalz Gizur

Kópavogssveitin Tjalz Gissur (Tjalz Gizur) starfaði um nokkurra ára bil fram undir miðjan tíunda áratug 20. aldar.

Hún var stofnuð 1990, spilaði eins konar sýrurokk og vorið 1992 tók hún þátt í Músíktilraunum Tónabæjar án þess þó að komast í úrslit. Meðlimir sveitarinnar voru þá þeir bræður Kristinn söngvari og gítarleikari og Guðlaugur Júníussynir trommuleikari Júníussynir, Einar Þór Hjartarson gítarleikari og Arnar Snær Davíðsson bassaleikari.

Ári síðar (1993) var Tjalz Gissur aftur með í Músíktilraunum, reynslunni ríkari og hafði þá bætt við sig söngkonu, hinni ítalskættuðu Emilíönu Torrini (Spoon) og þannig skipuð fór hún alla leið í úrslitin og hafnaði að endingu í öðru sæti á eftir Yukatan, Cranium varð í þriðja sæti.

Í kjölfarið hætti Emilíana í sveitinni og spilaði Tjalz Gissur mikið opinberlega við ýmsar uppákomur, en haustið 1994 gekk gítarleikarinn Egill Tómasson til liðs við bandið og starfaði með þeim þar til það lagði upp laupana sumarið 1996. Sveitin átti lag á safnplötunni Smekkleysa í hálfa öld, vorið 1994.

Meðlimir sveitarinnar voru þó síður en svo hættir afskiptum af tónlist og þeir fimmmenningar áttu eftir að spila með sveitum eins og Soðinni fiðlu, Vínyl (Vinyl) og Kanada svo dæmi séu tekin. Sögu Emilíönu Torrini þarf varla að tíunda hér.