Sofandi (1997-2005)

Sofandi 1998

Síðrokksveitin Sofandi vakti töluverða athygli í upphafi nýrrar aldar en hún sendi þá frá sér tvær plötur.

Sofandi var stofnuð sumarið 1997 en kom fyrst fram á sjónarsviðið þegar hún var meðal keppenda í Músíktilraunum Tónabæjar vorið 1998, þá voru meðlimir hennar þeir Markús Bjarnason söngvari og bassaleikari, Kristján Freyr Einarsson trommuleikari og Bjarni Þórisson gítarleikari en þeir höfðu þá skipað sveitina frá upphafi.

Sveitin fékk ágæta krítik í Músíktilraunum þótt ekki færi hún áfram í úrslitin, þremenningarnir héldu þó áfram störfum en voru framan af fremur lítt virkir, þeir komu þó eitthvað fram á tónleikum um haustið 1998 ásamt fleiri sveitum.

Sveitin hafði hægt um sig en um haustið 2000 fór smám saman meira fyrir Sofandi enda var þá plata væntanleg, þeir félagar héldu útgáfutónleika í Þjóðleikhúsinu í nóvember í tilefni útgáfu plötunnar en klúður hjá framleiðandanum í Þýskalandi varð reyndar til þess að hún kom ekki til landsins fyrr en í febrúar 2001. Platan, sem þeir gáfu út sjálfir og dreifðu undir merkjum Grandmother‘s records, bar titilinn Anguma og fékk ágæta dóma í Fókus og þokkalega í Morgunblaðinu, nafn sveitarinnar þótti hæfa tónlistinni vel en hún var afar róleg og höfðu þeir þremenningar söng í algjöru lágmarki.

Þegar platan kom loks út voru Sofandi þegar farnir að vinna nýtt efni sem til stóð að kæmi út um sumarið 2001 og átti þá að vera stuttskífa. Hún leit hins vegar ekki dagsins ljós fyrr en um haustið undir merkjum Thule records og var þá reyndar átta laga, og bar heitið Ugly demos. Skífan hlaut góða dóma í tímaritinu Sándi, Morgunblaðinu og Fréttablaðinu.

Sofandi 2001

Sveitin spilaði mikið um það leyti til að vekja athygli á plötunni og fóru m.a.s. norður til Húsavíkur til að spila, þá léku þeir einnig á Iceland Airwaves um haustið sem og tónleikum á vegum Unglistar svo dæmi séu nefnd. Birna Þráinsdóttir sem söng þrjú lög á plötunni gekk til liðs við sveitina um það leyti sem hún kom út en eftir áramótin 2001-02 lagðist Sofandi í híði um tíma enda var Bjarni þá með annan fótinn í Bandarikjunum. Af þeim ástæðum lék sveitin líklega ekkert fyrr en síðsumars 2002 þegar hún birtist á tónleikum ásamt fleiri sveitum, og svo ekkert fyrr en á Airwaves um haustið – engar upplýsingar er að finna um hvernig sveitin var þá skipuð.

Langur tími leið þar til Sofandi rumskaði næst en sveitin birtist þá á svonefndum Ísland-Palestínu tónleikum í febrúar 2004, og enn leið ríflega ár þar til heyrðist til hennar næst en hún kom þá fram sem upphitunaratriði fyrir hljómsveitina Úlpu á útgáfutónleikum þeirrar sveitar vorið 2005. Eftir það heyrðist ekkert meir til Sofandi og telst hún því hafa hætt störfum vorið 2005.

Lag með sveitinni birtist á safnplötunum Thulemusic / Sampler og AL 26,9815

Efni á plötum