Sounds (um 1965)

Um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar starfaði hljómsveit nokkurra unglinga á Siglufirði undir nafninu Sounds.

Meðlimir sveitarinnar voru þeir Kristján Elíasson trommuleikari, Guðmundur Víðir Vilhjálmsson gítarleikari, Sverrir Elefsen bassaleikari, Hjálmar Jónsson harmonikkuleikari og Jónas Halldórsson söngvari. Sveitin gæti að einhverju leyti hafa haft The Shadows að fyrirmynd þar eð flest laganna sem hún lék munu hafa verið ósungin, það passar þó ekki vel við liðsskipan sveitarinnar hér að ofan því þar er bæði að finna söngvara og harmonikkuleikara.

Eitt af þeim sungnu lögum sem Sounds hafði á lagaprógrammi sínu var Á sjó en Jónas söngvari er einmitt bróðir Þorvalds Halldórssonar sem gerði það lag ódauðlegt.

Svo virðist sem Sounds hafi aðeins einu sinni komið fram opinberlega, haustið 1965 í pásu hjá Stormum en óskað er eftir frekari upplýsingum um það sem og um starfstíma sveitarinnar.