Soul deluxe (1993-95)

Soul deluxe

Soul deluxe var tíu manna hljómsveit frá Akranesi sem sérhæfði sig í soul- og fönktónlist en sveitin hafði auk hefðbundinna hljóðfæraleikara á að skipa blásurum.

Sveitin starfaði að minnsta kosti á árunum 1993 til 95 og hugsanlega lengur, hún gæti hafa verið stofnuð við Fjölbrautaskóla Vesturlands – að minnsta kosti voru flestir meðlima hennar á framhaldsskólaaldri þegar sveitin var stofnuð.

Meðlimir sveitarinnar voru Einar Harðarson gítarleikari, Sigurdór Guðmundsson bassaleikari, Kristján Gunnarsson ásláttarleikari, Arnar Jónsson trommuleikari, Davíð Þór Jónsson saxófónleikari, Sigurþór Þorgilsson trompetleikari og Erlingur Viðarsson básúnuleikari en auk þess voru söngvararnir Þorbergur Viðarsson, Sigurbjörg Hauksdóttir og Svana Gísladóttir. Sveitin lék víða um land á hvers kyns skemmtunum og auk þess að minnsta kosti einu sinni á sveitaballi.

Soul deluxe var endurvakin árið 2011 til að leika á styrktartónleikum en þá leystu Hulda Gestsdóttir og Ragnheiður Hafsteinsdóttir söngkonurnar tvær af hólmi.