Soffía Karlsdóttir [1] (1928-2020)

Soffía Karlsdóttir

Nafn leik- og söngkonunnar Soffíu Karlsdóttur varð þekkt í tengslum við revíu- og kabarettsýningar, svo ekki sé minnst á nokkur lög sem hún gerði ódauðleg um miðja síðustu öld, sjálf leit hún aldrei á sig sem söngkonu en hún telst samt sem áður meðal allra fyrstu dægurlagasöngkvenna okkar Íslendinga.

Soffía Kristín Karlsdóttir fæddist í Reykjavík sumarið 1928 en ólst upp á landsbyggðinni, fyrst á Þingeyri og svo Skagaströnd til tíu ára aldurs áður en hún flutti til Akraness. Á Skaganum komst hún í fyrsta sinn í kynni við leiklistina og lék þá sautján ára gömul í revíusýningu, um svipað leyti fluttist hún til Reykjavíkur og nam í þrjú ár við Leiklistarskóla Lárusar Pálssonar, þaðan sem hún lauk prófi tvítug.

Árið 1949 hófst eiginlegur leiklistarferill Soffíu og varð hún fljótlega kunn fyrir leik og síðar gamanvísnasöng í revíum Bláu stjörnunnar næstu árin, þar má nefna revíur eins og Vorið er komið, Fagurt er rökkrið og Þetta er ekki hægt, áður en hún síðar lék í kabarettsýningum á vegum plötuútgáfunnar Íslenzkra tóna. Þá lék hún lítillega með Leikfélagi Reykjavíkur og jafnvel Þjóðleikhúsinu en aðal vettvangur hennar var þó revíu- og kabarettsýningar með gamanvísnasöng sem hálfgert sérfag, í þeim sýningum reyndi einnig á leik- og danshæfileika.

Þótt hún liti aldrei á sig sem söngkonu varð hún þekktust fyrir þann þátt, og klárlega má telja hana meðal allra fyrstu dægurlagasöngkvenna Íslandssögunnar því hún söng stundum með hljómsveitum þeim sem hún var að skemmta með, á dansleikjum einkum á landsbyggðinni en þar má t.d. nefna KK sextettinn sem fór út á land með Stjörnukabarettnum svokallaða sumarið 1950 en það sumar kom hún einnig töluvert fram á héraðsmótum, einnig má nefna hljómsveitir Hauks Sveinbjörnssonar, Karls Jónatanssonar og Skapta Ólafssonar, og svo í Reykjavík með hljómsveit Aage Lorange í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll. Þess má geta að Soffía lenti í þriðja sæti í uppgjöri Jazzblaðsins yfir bestu söngkonur ársins það árið (1950) þrátt fyrir að vera aðallega revíusöngkona, hún sinnti alla tíð daglaunavinnu samhliða skemmtikraftastarfinu.

Soffía ásamt Haraldi Björnssyni í revíuhlutverki

Sumarið 1952 fór Soffía í mikla reisur um landið ásamt Sigfúsi Halldórssyni og Höskuldi Skagfjörð undir yfirskriftinni Litla flugan, fyrir liggur að þremenningarnir fóru um norðan- og austanvert landið um mitt sumar og skemmtu þá á fjörutíu og sjö skemmtunum á þrjátíu og sex stöðum, þá hafði hópurinn farið áður um Vestfirði og svo aftur síðar um sumarið um Suðurlandið þannig að skemmtanirnar urðu töluvert fleiri. Á skemmtun í Hellubíói frumflutti Soffía lag eftir Sigfús, sem síðar hlaut nafnið Játning og var gefið út um haustið í flutningi höfundarins. Sumarið á eftir (1953) fór hún í svipaða ferð um landið með Gesti Þorgrímssyni en það sama ár hitaði hún m.a. upp fyrir sænska dægurlagasöngvarann Snoddas sem hér hélt tónleika.

Soffía söng heilmikið í Útvarpinu og þar munu vera til fjölmargar upptökur með söng hennar, en fyrsta plata hennar leit dagsins ljós árið 1952 þar sem hún söng tvö lög, Bílavísur / Réttarsamba og naut aðstoðar Tígulkvartettsins í síðarnefnda laginu. Lögin tvö, einkum Bílavísurnar urðu feikivinsæl en bæði lögin hafa gengið í endurnýjun lífdaga – Bílavísur með Björk og Tríói Guðmundar Ingólfssonar, og Réttarsamba með Lummunum og Andreu Gylfadóttur og tríói Björns Thoroddsen.

Tveimur árum síðar kom svo út tveggja laga plata með lögum sem ollu heilmiklum úlfaþyt þegar Soffía söng þau á 17. júní skemmtun (og líklega víðar) en þar voru á ferð revíulögin Það er draumur að vera með dáta og Það sést ekki sætari mey. Siðapostular þess tíma voru með það á hreinu að hér væri verið að ýta undir náin kynni stúlkna við ameríska dáta á Keflavíkurflugvelli og t.a.m. vildi ritstjóri Mánudagsblaðsins meina að hér væri um klámfengna texta að ræða – fleiri tóku í svipaðan streng. Heilmikil greina- og lesendabréfaskrif urðu um málið en fleiri tóku málstað söngkonunnar í þeirri umræðu, lögin tvö urðu fyrir vikið mjög vinsæl og eru fyrir löngu orðnar sígildar perlur í íslenskri dægurlagasögu enda hafa m.a. Diddú (Það er draumur að vera með dáta) og áðurnefnd Björk (Það sést ekki sætari mey) sungið þau lög á plötum sínum.

Soffía Karlsdóttir

Sama haust (1954) komu út tvö lög til viðbótar á plötu sem þau Soffía og Sigurður Ólafsson deildu, þar sungu þau saman lagið Ég bíð þér upp í dans, sem varð afar vinsælt, og svo söng Sigurður einn stórsmellinn Síldarvalsinn (Syngjandi sæll og glaður) sem þarf varla að kynna frekar en er ekki til umræðu hér. Önnur plata með þeim saman kom út vorið 1955 og hafði að geyma revíulögin Ég veit ei hvað skal segja / Maður og kona, Sigurður söng síðarnefnda lagið með Soffíu en hitt þekkja margir flutt af Björk, fleiri þekkja það þó auðvitað með öðrum texta með Halla og Ladda undir titlinum Tvær úr Tungunum.

Allar ofangreindar plötur komu út á vegum Íslenzkra tóna sem stóð jafnframt fyrir kabarettsýningum þeim sem Soffía tók þátt í, síðasta slíka sýningin sem hún var þátttakandi í var sýnd um haustið 1955 en vorið eftir (1956) hvarf hún snögglega af leiksviðinu og sást þar ekki meir. Þá hafði hún gengið í hjónaband og það varð að samkomulagi þeirra nýgiftu hjóna (eins og hún sagði sjálf í blaðaviðtali löngu síðar) að hún myndi helga sig heimili og fjölskyldu. Það varð því úr að hún brenndi alla söngtexta sem gerðir höfðu verið fyrir hana (og flestir þeirra voru hvergi til annars staðar hvorki á upptökum né prenti), auk þess sem hún brenndi alla kjóla sem hún hafði skemmt í á sýningum, á þeim tíma var erfitt að fá kjóla og kjólaefni hérlendis og hafði hún látið kaupa flesta þeirra erlendis. Þannig sneri hún baki við ferlinum í raun á hátindi sínum og helgaði sig fjölskyldulífinu, um það leyti hafði hún einnig fengið skólavist í Hollywood þar sem hún ætlaði að nema frekari fræði í leiklistinni en hætti við það einnig.

Soffía árið 1978

Soffía og eiginmaður hennar fluttust fáeinum árum síðar til Keflavíkur þar sem þau áttu eftir að búa upp frá því, þau eignuðust tíu börn og einhver þeirra (og barnabörn) hafa komið fram sem tónlistarfólk. Í Keflavík átti hún eftir að sinna ýmsum félagsmálastörfum, stofnaði þar með öðrum leikfélag og svo annað upp úr því (Leikfélag Keflavíkur), hún varð virk í kvennastarfi sjálfstæðisflokksins, kvenfélagsstörfum, Lions-hreyfingunni o.fl. en átti ekki eftir að koma fram sem leik- eða söngkona á sviði aftur.

Soffía lést haustið 2020, á nítugasta og þriðja aldursári.

Lög Soffíu gleymdust síður en svo og þau voru margoft leikin í útvarpsdagskránni, þar voru einnig leiknar upptökur þar sem hún söng með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar en fjölmargar upptökur munu vera til varðveittar hjá stofnuninni og því aldrei að vita nema einhvern tímann verði gefið út heildarsafn söngupptaka Soffíu Karlsdóttur, m.a. með lögum sem aldrei hafa komið út á plötum. Þá þarf varla að nefna að lög hennar sem komu út á plötum á sínum tíma hafa flest komið út á safnplötum í gegnum tíðina s.s. í safnplötuseríum eins og Aftur til fortíðar, 100 íslensk…, Óskalögin, Stóra bílakassettan og Svona var það…, og stökum safnplötum eins og Manstu gamla daga (2007), Lög frá liðnum árum (1960), 30 vinsæl lög 1950-60 (1977) o.fl. Þá mun Sigurjón Samúelsson frá Hrafnabjörgum hafa gefið út safnplötu í litlu upplagi sem hann nefndi Á síðasta snúningi og rúmlega það I, þar sem Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar leikur en þar mun Soffía einmitt koma við sögu að einhverju leyti – þar er um að ræða upptökur frá Ríksútvarpinu.

Efni á plötum