Steinunn Karlsdóttir (1955-99)

Steinunn Karlsdóttir

Steinunn Karlsdóttir píanóleikari og söngkona var um margt merkileg tónlistarkona. Hún fæddist í Keflavík 1955 í hringiðu rokksins þannig að tónlist hefur verið ríkur þáttur í æsku hennar og margt benti til að hún myndi hasla sér völl í tónlistinni, til að mynda kom hún margoft fram á árunum 1969 til 73 og flutti þjóðlagatónlist bæði á skemmtunum í Keflavík og Reykjavík (Austurbæjarbíói) þegar þjóðlagavakning sem þá var í gangi stóð sem hæst en hún var þá á unglingsaldri – m.a. kom hún þá fram í sjónvarpsþætti 17 ára gömul.

Eftir það fór minna fyrir Steinunni, hún giftist og eignaðist börn, söng þó líklega mest alla tíð í kór Keflavíkurkirkju og stundum einsöng með kórnum en það var svo um eða upp úr 1990 sem hún fór að láta að sér kveða á nýjan leik í söng og einnig sem píanóleikari en hún kom t.d. fram sem einleikari ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum á M-hátíð í Keflavík þar sem hún þótti efnilegur píanónemi við Tónlistarskólann í Keflavík þar sem hún stundaði einnig söngnám. Á þessum árum söng hún einnig dægurlög og sigraði m.a. í söngvakeppninni Söngvagleði sem var árviss viðburður í Keflavík, eitthvað mun hún einnig hafa sungið með hljómsveitum og einnig innan tónlistarskólans s.s. með Léttsveit Tónlistarskóla Keflavíkur. Steinunni auðnaðist þó hvorki að ljúka burtfararprófi í söng- né píanónáminu þar sem veikindi settu strik í reikninginn og svo fór að þau lögðu hana að velli snemma árs 1999 nokkrum dögum fyrir fjörutíu og fjögurra ára afmælisdaginn.