Stefán Íslandi (1907-94)

Stefán Íslandi

Óperusöngvarinn og tenórinn Stefán Íslandi var stórstjarna á þess tíma mælikvarða en hann gerði garðinn frægan aðallega í Danmörku þar sem hann starfaði hvað lengst, hugsanlega hefði hann náð enn lengra ef heimstyrjöldin síðari hefði ekki gripið inn í örlögin. Fjölmargar plötur komu út með söngvaranum á sínum tíma.

Stefán Guðmundsson fæddist að Krossanesi í Skagafirði haustið 1907, hann var barn fátæks vinnufólks og því má segja að tilviljun ein hafi ráðið því að hann náði slíkum frama. Þegar hann var um tíu ára aldur lést faðir hans af slysförum og í kjölfarið var fjölskyldan leyst upp, Stefán var hins vegar tekinn í fóstur hjá góðu fólki á Sauðárkróki og þar uppgötvuðust sönghæfileikar hans en hann söng oft við vinnu sín hvort sem það innan dyra eða utan. Það var því ekki hjá því komist að menn heyrðu til hans og fyrir fermingu var hann farinn að skemmta sveitungum sínum með söng og varð því fljótt þekktur í héraðinu, hann söng á hvers kyns skemmtunum nyrðra og jafnvel á dansleikjum, og söng svo á sínum fyrstu tónleikum (ásamt fleirum) á Siglufirði – líklega sumarið 1924.

Svo fór sumarið 1926 að þegar Kristján Gíslason kaupmaður á Sauðárkróki fékk hann til syngja fyrir gesti sína að þar var viðstaddur sjálfur Eldeyjar-Hjalti (Jónsson) sem hvatti hann til að koma til sín ef hann færi suður til Reykjavíkur og gaf Stefáni þannig undir fótinn hvað söng og söngnám snerti. Stefán hafði reyndar þá ekki ráðgert að fara suður yfir heiðar því hann hafði plön um að fara til Akureyrar til að nema trésmíðar, þar ætti hann víst pláss í Karlakórnum Geysi. Þau plön breyttust þó greinilega við þessa hvatningu Eldeyjar-Hjalta því Stefán sigldi suður með strandferðaskipinu Esju frá Akureyri en hélt þar reyndar tónleika fyrir fullu húsi þar sem hann söng lög eftir Sigvalda Kaldalóns, áður enn hann sté á skipsfjöl. Eldeyjar-Hjalti tók Stefán að sér þegar suður var komið og kom honum fljótlega í söngnám hjá Sigurði Birkis söngkennara. Hann tók að sér ýmis störf í Reykjavík samhliða söngnáminu og m.a. komst hann á hárskerasamning en ætlunin var að gerast hárskeri. Honum gekk einnig vel í söngnáminu og fljótlega var hann farinn að syngja á nemendatónleikum en gekk jafnframt í Karlakór Reykjavíkur og þar steig hann sín fyrstu spor sem einsöngvari á tónleikum snemma árs 1929 þar sem hann söng lag sem síðar átti eftir að verða eins konar einkennislag hans – Ökuljóð (Áfram veginn). Það sama sumar hafði hann nokkrar tekjur af því að syngja undir bíósýningum á (þöglu) kvikmyndinni Ramona í Nýja bíói og var söngur hans jafnframt til að uppselt var á allar sýningar, einnig söng hann á tónleikum í Gúttó við Tjörnina svo dæmi séu nefnd. Þá söng hann í Útvarp Reykjavík, en það var útvarpsstöð sem var eins konar forveri Ríkisútvarpsins.

Gunnar Pálsson og Stefán

En ýmsir sáu fyrir sér að Stefán ætti erindi í söngnám erlendis og menn eins og Sigurður Þórðarson (stjórnandi Karlakórs Reykjavíkur) reyndu að greiða fyrir leið hans, það varð svo úr að Richard Jensen forstjóri Kveldúlfs kostaði hann til náms á Ítalíu haustið 1929. Stefán átti svo eftir að dveljast í Mílanó næstu fjögur árin í námi og fljótlega eftir það söng hann sitt fyrsta óperuhlutverk, í Tosca í Flórens. Um það leyti tók hann upp nafnið Stefano Islandi því Ítalir áttu erfitt með að bera fram föðurnafn hans – Guðmundsson.

Stefán söng á næstu árum fjölmörg óperuhlutverk á Ítalíu en eftir 1935 lá leið hans mun víðar í Evrópu enda var þá fasisminn heldur farinn að láta á sér kræla á Ítalíu og Stefáni fannst það lítt fýsilegur kostur, hann söng þá t.a.m. í Þýskalandi, Ungverjalandi og víðar í Evrópu og kom svo reglulega heim til Íslands og hélt tónleika í Reykjavík – allt upp í sex tónleika hverju sinni og alltaf fyrir fullu húsi enda er óhætt að segja að Stefán hafi verið orðið óskabarn þjóðarinnar, þá fór hann einnig í söngferðir út á land og söng mikið með Karlakór Reykjavík – reyndar fór hann sem einsöngvari með kórnum í söngferðalag um Norðurlöndin vorið 1935. Í þeirri ferð vakti söngur hans nokkra athygli í Kaupmannahöfn og þar bauðst honum að syngja í Rigoletto í Konunglega óperuhúsinu, úr því varð reyndar ekki að sinni en Stefán dvaldist í Danmörku um veturinn og söng þar eitthvað á tónleikum. Vorið eftir 1936 skrifaði Stefán undir sinn fyrsta plötusamning, við útgáfufyrirtækið His Master‘s Voice (HMV) og komu fyrstu tvær plöturnar (78 snúninga) með honum út það sama ár, þær höfðu annars vegar að geyma einsöngslögin Í fjarlægð / Vögguljóð og hins vegar tvær óperuaríur, þessar plötu komu a.m.k. fjórum sinnum út á næstu árum. Þrjár plötur komu út á vegum Fálkans hér heima með Stefáni árið 1937 þar sem hann söng einsöng með Karlakór Reykjavíkur, allar höfðu þær að geyma Ökuljóð (Áfram veginn) sem varð um það leyti helsti stórsmellur Stefáns, ein útgáfa plötunnar hafði að geyma aðeins þetta eina lag en á hinum útgáfunum tveimur voru óperuaríur með Ökuljóðinu, önnur þeirr (HMV DA 5278) er mest selda 78 snúninga plata á Íslandi. Ríkisútvarpið mun hafa haft frumkvæði að útgáfu platnanna. Stefán fór aftur niður til Ítalíu þar sem fasistar réðu nú orðið ríkjum og pressuðu á hann að starfa með sér sem Stefán hafði engan hug á og fór því að sækja meira norður á bóginn, var nokkuð áfram í Danmörku, Þýskalandi og víðar en kom hingað heim reglulega sem fyrr segir.

Stefán í Mílanó 1933

Haustið 1939 urðu þáttaskil í lífi Stefáns Íslandi reyndar eins og flestra jarðarbúa þegar heimsstyrjöld skall á í Evrópu, hann var þá staddur í Kaupmannahöfn og hafði starfað þar um nokkurn tíma við góðan orðstír og varð þar innlyksa þegar Þjóðverjar réðust inn í Danmörku vorið eftir, hann hlaut um það leyti fastráðningu við Konunglega óperuna í Kaupmannahöfn og varð það feikilega vinsæll. Hann kynntist þar söngkonunni Else Brehms sem hann giftist og eignuðust þau soninn Eyvind Islandi (sem síðar varð söngvari einnig), hjónaband þeirra varð hins vegar ekki langt og mun ástæðan hafa verið samkynhneigð hennar en hún kom þó aldrei opinberlega út úr skápnum. Stefán giftist aftur síðar en það hjónaband varð einnig stutt.

Á styrjaldarárunum reis þó söngferill Stefán líklega einna hæst en hann söng þá stór hlutverk í öllum stærstu óperunum við Konunglegu óperuna s.s. Carmen (á móti Else Brehms), La Bohéme, Faust, Rakaranum í Sevilla, Cavalleria Rusticana og þannig mætti áfram telja. Fjölmargar plötur komu út á vegum Fálkans (HMV) með Stefán á þessum árum þrátt fyrir að plötuframleiðsla væri í algjöru lágmarki vegna hráefnisskorts af sökum styrjaldarinnar, þannig komu t.a.m. tvær plötur út árið 1940 með óperuaríum og aðrar þrjár árið 1942 en á einnig þeirra söng hann ásamt danska baritónsöngvaranum Henry Skjær, þá kom einnig út plata með þeim hjónum Stefáni og Else árið 1943. Stefán hafði þá einnig hljóðritað tólf laga plötu í London sem ráðgert hafði verið að kæmi út en upptökurnar eyðilögðust í loftárás Þjóðverja á borgina og platan sem hefði getað opnað honum frægðarbrautina utan Danmerkur og Íslands, kom aldrei út.

Stefán kom ekki aftur til Íslands fyrr en að styrjöld lokinni, síðsumars 1945, þá hélt hann tónleika í Reykjavík og fór svo norður í land til tónleikahalds ásamt undirleikara. Hann hélt aftur til Danmerkur og héldu margir að þá færi hann til Bandaríkjanna til að freista gæfunnar (allar hans áætlanir fyrir stríð höfðu miðast við það) en hann kaus að halda tryggð við Dani og bjó þar áfram og starfaði eftir stríð. Hins vegar kom hann reglulega heim til Íslands til tónleikahalds og söng þá sem áður með Karlakór Reykjavíkur og fór þá m.a. með kórnum í tveggja og hálfs mánaðar langa tónleikaferð til Bandaríkjanna og Kanada haustið 1946 þar sem þeir sungu á um sextíu tónleikum, sú ferð reyndi mikið á og var erfið í alla staði enda voru vegalengdirnar miklar og átti það þátt í að draga úr áhuga hans á því að flytjast vestur um haf – alls fór Stefán í fjórar tónleikaferðir erlendis með karlakórnum.

Stefán Íslandi

Danir áttu eftir að þakka Stefáni tryggðina og síðla árs 1949 hlotnaðist honum sá heiður að vera gerður að konunglegum hirðsöngvara en það mun hafa verið í fyrsta sinn sem útlendingur fékk þann titil – það þýddi reyndar að konungur gat kallað hirðsöngvarann fyrir og látið hann syngja fyrir sig hvenær sem var, í kjölfarið gerðist Stefán einnig söngkennari við Konunglegu óperuna. Þetta sama ár, 1949 komu svo út hér á vegum Fálkans átta lög á fjórum plötum en þar voru á ferð íslensk einsöngslög sem Stefán söng við undirleik Fritz Weisshappel. Nokkrar plötur til viðbótar komu svo út á sjötta áratugnum en einnig nokkrar endurútgáfur þegar 45 snúninga plötuformið kom til sögunnar, þá kom út tíu tommu breiðskífa með áður útgefnum lögum með Stefáni, Else Brehms og Henry Skjær, árið 1958 undir titlinum Famous tenor arias and duets.

Sumarið 1951 kom Stefán enn einu sinni heim til Íslands en að þessu sinni til að syngja í óperuuppfærslu en Rigoletto var þá settur á svið í Þjóðleikhúsinu sem þá var nýtekið til starfa. Eftir það söng hann ekki mikið því að um haustið veiktist hann í kinnbeinsholunum og átti í þeim veikindum um skeið, hann söng eitthvað en í kjölfar uppskurðar sem hann fór í tengt þessu, vorið 1952 veiktist hann hastarlega og söng lítið lengi á eftir. Eftir 1960 varð hann svo heilsulítill og söng enn minna eftir það, var t.a.m. alveg frá 1962-64 vegna veikinda – m.a. vegna magasárs. Sumarið 1964 kvaddi Stefán Konunglegu óperuna sem söngvari og hélt hann áfram kennslu þar um tveggja ára skeið en afþakkaði að taka við stjórn Tónlistarskólans í Kaupmannahöfn enda hafði hann alltaf ráðgert að eyða elliárunum heima á Íslandi, hann flutti því heim til Íslands árið 1966 og var þá alkominn heim. Stefán kenndi söng hér heima næstu árin á eftir áður en hann settist endanlega í helgan stein.

Nokkrar endurútgáfur höfðu komið út á 45 snúninga plötum sem fyrr segir en það var ekki fyrr en árið 1971 sem að breiðskífa með úrvali laga Stefán kom út en hún bar einfaldlega heitið Stefán Íslandi. Fyrsta upplag hennar seldist á fáeinum dögum svo endurpanta þurfti í snarhasti nýtt upplag en það var Fálkinn í samstarfi við Skagfirðingafélagið í Reykjavík sem stóð að baki útgáfunnar. Enn liðu fjölmörg ár uns næst var ráðist í endurútgáfu á tónlist Stefáns en þá var það líka gert með veglegum hætti árið 1987 en Stefán fagnaði um það leyti 80 ára afmæli, Taktur (sem hafði þá eignast útgáfuréttinn frá Fálkanum) gaf þá út í samstarfi við Ríkisútvarpið fjögurra platna safnpakka undir titlinum Áfram veginn… sem var auðvitað viðeigandi titill.

Stefán kominn á efri ár

Stefán Íslandi lést á nýársdag 1994, og þar lauk sögu þessa merka tenórsöngvara sem gerði garðinn frægan í Danmörku en heimsstyrjöld kom í veg fyrir frekari frama hans úti í hinum stóra söngheimi. Ógrynni upptaka eru varðveittar með söng hans sem sést e.t.v. best á fjögurra platna safnpakkanum sem kom út 1987 en nokkrum mánuðum eftir andlát hans kom út í fyrsta sinn á geisladiskaformi safnplata með honum en hún bar titilinn Ökuljóð og var gefin út af Spori sem þá hafði eignast útgáfuréttinn. Þá hafa nokkur lög með Stefáni verið gefin út á hinum ýmsu safnútgáfum. Árið 1975 kom út ævisaga hans undir heitinu Áfram veginn en hún var skráð af Indriða G. Þorsteinssyni sveitunga Stefán en hann hafði tekið við verki Sverris Kristjánssonar sem hóf það.

Stefán var stórstjarna í íslensku tónlistarlífi og e.t.v. er besti mælikvarðinn þær viðurkenningar sem honum hlotnaðist um ævina fyrir söngframlag sitt, hér má nefna m.a. að hann hlaut bæði fálkaorðuna og stórriddarakross, hina dönsku Dannebrog-orðu og var á heiðurslaunum listamanna hér heima um árabil.

Efni á plötum