Steinþór Stefánsson (1961-88)

Steinþór Stefánsson

Steinþór Stefánsson bassaleikari var ein birtingarmynd pönkbylgjunnar sem gekk yfir landið á árunum 1980 til 82 en hann var þar áberandi sem bassaleikari hljómsveita eins og Fræbbblanna og Q4U og þá um leið sem mótív fyrir ljósmyndara dagblaðanna sem voru óþreytandi að smella af honum myndum. En Steinþór var ekki eingöngu bassaleikari og módel, hann samdi líka tónlist og texta / ljóð og málaði einnig töluvert.

Steinþór Stefánsson var fæddur árið 1961 og uppalinn á Akureyri sem var ekki beinlínis suðupottur í tónlist þegar hann var að alast þar upp – og hvað þá hvað pönk áhrærir, ekki liggja fyrir neinar upplýsingar um tónlistarnám hans eða hvenær hann hóf að leika tónlist en heimild hermir að hann hafi á unglingsárum sínum verið bassaleikari í hljómsveit sem ku hafa innihaldið mest um átta manns en sú sveit var eins konar undanfari Bara-flokksins og starfaði á árunum 1977 til 80, undir það síðasta undir nafninu Síhanouk.

Sumarið 1979 héldu þeir Steinþór sem þá var á nítjánda ári og Árni Daníel Júlíusson (síðar sagnfræðingur) sem var tveimur árum eldri suður yfir heiðar til að ganga til liðs við Snillingana í Kópavoginum sem almennt er talin meðal allra fyrstu pönkhljómsveita Íslands og sú sveit átti eftir að vekja nokkra athygli og ekki síst fyrir tilburði Steinþórs sem var með allar pósurnar á hreinu og eftir hina svokölluðu Kampútseu tónleika í Austurbæjarbíói snemma árs 1980 sagði blaðamaður Morgunblaðsins svo frá: „Það er ekki ofsögum sagt að Steinþór Stefánsson hafi vakið þeirra mesta athygli. Ekki fyrir hæfileika sína sem bassaleikari, heldur fyrir líflega sviðsframkomu. Fettur hans og bretttur féllu vel í kramið hjá aðdáendum hljómsveitarinnar, sem voru margir og höfðu hátt. Milli þess, sem hann otaði bassanum að áhorfendum og setti sig í stellingar, sem aðrir bassaleikarar, eru oft ljósmyndaðir í, kallaðist hann á við hávaðaseggina út í sal og bauð þeim óhikað byrginn. Svo sannarlega var Steinþór óárennilegur, þar sem hann stóð þarna á sviðinu, nakinn fyrir ofan mitti, í slitnum gallabuxum og með dökk sólgleraugu.“ Og þar með var hann orðinn eins konar andlit pönksins og kannski um leið brautryðjandi í ögrandi sviðsframkomu sem endurspeglaðist síðar í hljómsveitum eins og Utangarðsmönnum og fleirum, Steinþór var jafnframt hugsjónamaður, reiður pönkari fram í fingurgómana en um leið ljúfur sem lamb eftir því sem samferðarmennirnir segja.

Steinþór með bassann á lofti

Steinþór staldraði ekki lengi við í Snillingunum og um vorið 1980 hafði hann gengið til liðs við Fræbbblana og átti eftir að starfa með þeirri sveit meðan pönkbylgjan stóð yfir og var annar af aðal laga- og textasmiðum þeirrar sveitar, samdi m.a. hið umdeilda og margfræga lag Fræbbblanna – Í nótt. Hann gekk einnig til liðs við aðra pönksveit sem var stofnuð um svipað leyti og bar nafnið Q4U en þar var hann gítarleikari, sú sveit var reyndar þekkt fyrir að hafa komið fram á öðrum tug tónleika áður en hún hélt sína fyrstu æfingu. Báðar sveitirnar, Fræbbblarnir og Q4U voru í sviðsljósi kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík og þar ber nokkuð á Steinþóri.

Þegar pönkbylgjan hjaðnaði hættu sveitirnar tvær störfum í bili og á næstu árum starfaði Steinþór með nokkrum skammlífum sveitum bæði sunnanlands og fyrir norðan, hér má nefna sveitir eins og Vá, Joð-ex, Kvöl nágrannans, Akureyrar-útlagarnir, Parror, Parrak og Lost, sumar þeirra gáfu út lög og jafnvel kassettur með frumsömdu efni en Steinþór var þá einnig farinn að vekja athygli sem ljóðskáld og að minnsta kosti fjórar ljóðabækur komu út með skáldskap hans, bækur sem gefnar voru út í afar litlu upplagi en hafa í dag líklega nokkurt söfnunargildi. Þá var hann einn af fjölmörgum ljóðskáldum sem lásu ljóð undir tónlistaflutning á kassettunni Fellibylurinn Gloría, þar var hann á meðal skálda eins og Sjónar, Dags Sigurðssonar, Geirlaugs Magnússonar, Einars Más Guðmundssonar o.fl. Og Steinþóri var meira til lista lagt því hann málaði einnig töluvert og þótti nokkuð liðtækur með penslana.

Síðasta myndin sem tekin var af Steinþóri

Steinþór hafði ýmist verið á höfuðborgarsvæðinu eða Akureyri (og um skamma hríð reyndar einnig í Danmörku) en svo kom að því árið 1987 að hann vildi festa rætur og fór í iðnnám, sambýliskona hans var þá þunguð og þau settust að á höfuðborgarsvæðinu. Þar var hann virkur í mótorhjólasamfélagi Sniglanna og var einn af stofnendum mótorhjólaklúbbsins Óskabarna Óðins sem var stofnaður um það leyti en Steinþór hannaði merki félagsins.

Það var svo í mars árið 1988 sem þau höfðu verið á skemmta sér á Sniglaballi á Álftanesi að Steinþór týndist eftir dansleikinn og fannst svo látinn tveimur dögum síðar í fjöruborðinu, hann hafði þá orðið úti. Steinþór sem þá var á tuttugasta og sjöunda aldursári lét eftir sig unnustu og þriggja mánaða gamlan son. Tónlistarsamfélagið syrgði Steinþór og þrátt fyrir að hann hafi ekki tilheyrt allra vinsælustu hljómsveitum landsins vissu flestir hver hann var og þegar minningartónleikar voru haldnir um hann um haustið 1988 í Tunglinu undir yfrskriftinni Minni Steinþórs léku margar og ólíkar hljómsveitir fyrir fullu húsi, Fræbbblarnir, Q4U, Purrkur pillnikk, Kamarorghestar og Langi Seli og skuggarnir voru meðal þeirra. Svipaðir minningartónleikar voru svo haldnir tveimur árum síðar í Dynheimum á Akureyri þar sem fjöldi akureyskra hljómsveita léku fyrir nokkur hundruð manns.