Afmælisbörn 4. ágúst 2022

Rafn Haraldsson

Að þessu sinni eru þrjú afmælisbörn á skrá Glatkistunnar.

Jófríður Ákadóttir er tuttugu og átta ára gömul í dag en hún hefur komið ótrúlega víða við í tónlistinni þótt hún sé ekki eldri en þetta. Hún vakti fyrst athygli með Pascal Pinon í Músíktilraunum og síðan aftur með Samaris sem sigraði reyndar keppnina 2011 en báðar sveitirnar hafa sent frá sér nokkrar plötur. Þá á Jófríður einnig að baki sólóferil undir nafninu JFDR og hefur gefið út plötur undir því nafni.

Tvíburasystir Jófríðar, Ásthildur Ákadóttir hljómborðs- og píanóleikari er eðli málsins samkvæmt einnig tuttugu og átta ára í dag en hún starfar einnig í hljómsveitinni Pascal pinon sem í dag er dúett. Ásthildur hefur starfað með fjöldanum öllum af öðru tónlistarfólki og þar á meðal má nefna dúettinn Hungry dragon sem sigraði tónlistarkeppnina Kammer 6: tónlistarhátíð unga fólksins árið 2014.

Þá er hér einnig nefndur trommuleikarinn Rafn Haraldsson (f. 1947) sem lék með mörgum þekktum og óþekktum hljómsveitum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar, hér eru nefndar sveitir eins og Toxic, 5-pence, Flowers, Grástakkar, Náttúra, Persona, Haukar og Frugg. Rafn lést af slysförum 1981 aðeins þrjátíu og fjögurra ára gmall.

Vissir þú að Steinunn Hanna Hróbjartsdóttir var að öllum líkindum fyrst til að syngja rokk á sviði fyrir áhorfendur á Íslandi?