Afmælisbörn 5. ágúst 2022

Rósa Ingólfsdóttir

Tónlistartengdu afmælisbörnin eru fimm talsins á þessum degi:

Haukur Heiðar Ingólfsson píanóleikari á stórafmæli en hann er áttræður í dag. Haukur Heiðar hefur gefið út fjöldann allan af plötum þar sem hann leikur oftast instrumental lög í félagi við aðra, sem hvarvetna hafa fengið góða dóma. Haukur Heiðar var lengi þekktastur fyrir að vera undirleikari Ómars Ragnarssonar á skemmtunum en hann starfrækti einnig eigin hljómsveit á sínum tíma, HH kvintett.

Sverrir Þór Sverrisson (Sveppi) er fjörutíu og fimm ára. Söng Sveppa er víða að finna á plötum, einkum tengdar börnum en hann hefur aukinheldur sungið á fjölmörgum plötum sem innihalda tónlist úr leikhúsi og kvikmyndum, auk jólaplatna. Sveppi gaf ennfremur út barnaplötu í samstarfi við Vilhelm Anton Jónsson (Villa naglbít) fyrir nokkrum árum.

Gunnsteinn Ólafsson hljómsveita- og kórstjóri sem líklega þekkastur fyrir aðkomu sína að þjóðlagahátíð þeirri sem haldin er á Siglufirði ár hvert, á eins og Haukur Heiðar stóraafmæli á þessum degi en hann er sextugur. Gunnsteinn hefur einnig kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík og við tónlistardeild Listaháskóla Íslands auk þess að gefa út plötuna Gömul vísa um vorið en hún hefur að geyma sönglög eftir Gunnstein.

Rósa Ingólfsdóttir átti einnig þennan afmælisdag en hún lést 2019. Rósu þekkja margir síðan hún var sjónvarpsþula í Ríkisútvarpinu en áður starfaði hún sem tónlistarkona, var ein af fyrstu kventrúbadorum landsins og skemmti með söng og gítarleik, hún söng einnig með hljómsveitum um tíma s.s. Orion og Sóló. Rósa var menntuð leikkona og myndlistakona og var um þriggja áratuga skeið aðalteiknari Ríkissjónvarpssins. Hún gaf út þrjár sólóplötur og söng sem gestur á fjölmörgum plötum annarra listamanna.

Grétar Ingimarsson trommuleikari Facon frá Bíldudal hefði einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést 1990. Grétar  (fæddur 1942) kemur því við sögu í laginu Ég er frjáls sem margir þekkja en hann hafði einnig áður verið í bílddælsku hljómsveitinni Kvartettinn og Kristján.

Vissir þú að tónlistin úr söngleiknum Hárinu hefur þrívegis komið út á plötum á Íslandi?