Afmælisbörn 10. nóvember 2022

Steinþór Stefánsson

Fjögur tónlistartengd afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Gylfi (Viðar) Ægisson söngvari, gítarleikari, sprellari, söngleikjahöfundur, útgefandi, laga- og textasmiður er sjötíu og sex ára gamall í dag, hann hefur mest starfað sem sólólistamaður og gefið út fleiri tugi platna sem slíkur en hefur einnig unnið með GRM, Áhöfninni á Halastjörnunni, auk annarra.

Kormákur Geirharðsson verslunarmaður, kráareigandi og fyrrum trommuleikari sveita eins og Q4U, Langa Sela og skugganna, Hringja, Ikarusar, KK-bands og Oxzmá svo fáeinar séu upp taldar, er fimmtíu og níu ára gamall á þessum degi.

Gunnar Ben (Benediktsson) sem kunnastur er fyrir veru sína í hljómsveitinni Skálmöld er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Gunnar leikur þar á hljómborð og óbó (og syngur) en hefur einnig leikið og verið viðloðandi sveitir eins og Hraun og Ljótu hálfvitana, auk þess að hafa spilað inn á fjölda platna með hinum og þessum. Hann hefur jafnframt annast kórstjórn, m.a. með Vocal Project o.fl.

Einnig hefði Steinþór Stefánsson bassaleikari og ljóðskáld frá Akureyri átt afmæli á þessum degi en hann lést á sviplegan hátt árið 1988, hann lék með fjölda hljómsveita á sínum tíma og hér má nefna sveitir eins og Q4U, Parror, Snillingana, Síhanouk, Joð-ex, Lost, Kvöl nágrannans, Akureyrar-útlagana og Fræbbblana en sú síðast talda var auðvitað þeirra þekktust. Steinþór var fæddur 1961.

Vissir þú að trompetleikarinn Lárus Sveinsson var faðir söngkvennanna Dísellu, Þórunnar og Ingibjargar Lárusdætra?