
Stuna
Hljómsveitin Stuna var nokkuð sér á báti í íslenskri rokktónlist upp úr miðjum tíunda áratug síðustu aldar en hún var þá einna fyrst hljómsveita hérlendis til að blanda saman þungu rokki og tölvu- og danstónlist. Sveitin sendi frá sér eina plötu.
Stuna var stofnuð sumarið 1995 af Jóni Símonarsyni söngvara og gítarleikara og Kristjáni (Stjúna) Ásvaldssyni trommuleikara og fljótlega gengu þeir Alfreð Símonarson hljómborðsleikari og Sigurjón Baldursson bassaleikari til liðs við þá félaga. Sveitin kom fyrst fram á tónleikum þá um haustið en lítið fór fyrir henni næsta árið, það var ekki fyrr en haustið 1996 að hún varð aftur virk á tónleikasviðinu en segja má að Rósenberg hafi þá verið eins konar heimavöllur sveitarinnar.
Það sama haust kom svo út fjórtán laga plata gefin út af Smekkleysu, sem bar heitið M.m.m. (Multi media masturbation) og fylgdi Stuna þeirri plötu nokkuð eftir með spilamennsku. Platan hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og Degi en slakari í DV, hún þótti nokkuð tvískipt að efni og helst var henni fundið til foráttu að tónlistin væri ýmist hreint rokk eða hreint rafrokk, e.t.v. spilaði inn í að platan var tekin upp á aðeins sextíu tímum. Tónlistina samdi sveitin í sameiningu en Jón samdi textana sem allir voru á ensku.
Stuna spilaði eitthvað fram í febrúar 1997 en síðan heyrðist lítið sem ekkert til sveitarinnar fyrr en um haustið þegar sveitin hélt kveðjutónleika en Alfreð var þá að flytja erlendis. Þá var gefið út að sveitin myndi starfa áfram en hún kom þó líklega ekkert fram um veturinn og birtist ekki aftur fyrr en í mars 1998 þegar hún hélt tónleika en það munu hafa verið síðustu tónleikar sveitarinnar og síðan hefur hvorki heyrst til hennar Stuna né hósti.