Glatkistan

Valmynd

Hoppa yfir í efni
  • Heim
  • Gagnagrunnur
    • 0-9 [6]
    • A [66]
    • Á [11]
    • B [499]
    • C [131]
    • D [142]
    • Ð [3]
    • E [83]
    • É [4]
    • F [348]
    • G [389]
    • H [72]
    • I [69]
    • Í [54]
    • J [111]
    • K [160]
    • L [63]
    • M [252]
    • N [116]
    • O [67]
    • Ó [76]
    • P [152]
    • Q [3]
    • R [126]
    • S [1047]
    • T [324]
    • U [42]
    • Ú [34]
    • V [174]
    • W [19]
    • X [16]
    • Y [12]
    • Ý [3]
    • Z [5]
    • Þ [108]
    • Æ [5]
    • Ö [14]
  • Fréttir
    • Fréttasafn
  • Greinar
    • Greinasafn
  • Gagnrýni
    • Gagnrýnasafn
  • Textar
    • A [92]
    • Á [65]
    • B [128]
    • C [9]
    • D [72]
    • E [129]
    • É [116]
    • F [144]
    • G [117]
    • H [137]
    • I [11]
    • Í [68]
    • J [61]
    • K [133]
    • L [161]
    • M [109]
    • N [64]
    • O [19]
    • Ó [44]
    • P [26]
    • Q [1]
    • R [56]
    • S [349]
    • T [76]
    • U [32]
    • Ú [20]
    • V [173]
    • Y [7]
    • Þ [140]
    • Æ [16]
    • Ö [14]
  • Á döfinni
    • Viðburðaskrá
  • Tenglar
  • Heimildir
  • Annað
    • Getraunir
    • Kannanir
    • Krossgátur
    • Topp tíu listar
  • Hafið samband
  • Auglýsingar
  • Um síðuna

Gylfi Ægisson (1946-)

Helgi J / 19/01/2015
Gylfi Ægisson 1973

Gylfi á yngri árum

Gylfi (Viðar) Ægisson (f. 1946) er einn afkastamesti tónlistarmaður íslenskrar tónlistarsögu, hann hefur ætíð farið eigin leiðir og þó svo hann hafi ekki alltaf verið allra hefur hann verið einlægur í því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur.

Gylfi var ekki áberandi framan af, á uppvaxtarárum sínum á Siglufirði hóf hann snemma að stunda sjómennsku og hann fór ennfremur að dufla við brennivín en það var þá vani sjómanna að skvetta í sig í landlegum. Hann fiktaði við ýmis hljóðfæri, einkum gítar og harmonikku og hóf að leika með hljómsveitum, ein þeirra hét Berkir og starfaði á Bolungarvík, önnur hét Eymenn og var í Vestmannaeyjum og enn ein bar heitið Tríó 72 en Gylfi starfaði og bjó víða á þessum árum.

Gylfi fór snemma að semja tónlist, og var lagið Í sól og sumaryl fyrsta lagið sem út kom eftir hann, flutt af hljómsveit Ingimars Eydal og gefið út á samnefndri plötu 1972. Lagið var samið í Lystigarðinum á Akureyri eins og frægt er orðið en þar sat Gylfi ásamt tveimur drykkjufélögum á heitum sumardegi 1971, sr. Pálmi Matthíasson þáverandi sumarafleysingalögregluþjónn kom á staðinn eftir að kvartað hafði verið yfir þeim félagum en leyfði Gylfa að ljúka við að semja lagið. Lagið er löngu orðið sígilt og fjölmargir hafa flutt það og útgefið síðan, sagan segir ennfremur að til sé ensk útgáfa af laginu flutt af hljómsveitinni Change en sú útgáfa hefur því miður aldrei verið gefin út, hún var þó gerð án vitundar Gylfa. Á sömu plötu Hljómsveitar Ingimars Eydal var reyndar annað lag (Ég sá þig) eftir Gylfa en það hefur ekki lifað jafn góðu lífi síðan þrátt fyrir að hafa notið nokkurra vinsælda líka.

Þegar hér var komið sögu vann Gylfi að einhverju leyti orðið fyrir sér í landi, m.a. á hóteli í Vestmannaeyjum þar sem hann vann á barnum og lék dinner á orgel. Hann hafði þá þegar fengist nokkuð við að taka upp eigið efni og annarra á segulbönd sem hann jafnvel seldi en sagan segir að hann hafi stundum kveikt á segulbandinu þegar hann sat við orgelið og jafnvel staðið upp frá hljóðfærinu í miðju lagi.

Um svipað leyti og lögin komu út átti Gylfi tvö lög lítilli plötu hljómsveitarinnar Svanfríðar og naut annað lagið, Jibbý jey mikilla vinsælda enda Svanfríður þá vinsælust allra hljómsveita á Íslandi. Gylfi varð þjóðþekktur lagasmiður fyrir vikið og fjölmargir fluttu lög hans og gáfu út á plötum í kjölfarið, m.a. Svanhildur Jakobs og Hljómsveit Ólafs Gauks, hljómsveitin Ljósbrá, Óðinn Valdimarsson og ekki síst Logar úr Vestmannaeyjum sem gáfu út tveggja laga plötu til styrktar Vestmannaeyingum en eldgos herjaði þá á eyjunni þeirra 1973. Lögin, Minning um mann og Sonur minn, urðu afar vinsæl enda seldist platan gríðarlega vel, í um þrjú þúsund eintökum fyrstu vikuna. Minning um mann, sem fjallar um Gölla Valdason Vestmannaeying, hefur fyrir löngu skipað sér sess meðal Íslendinga sem rútubílaslagari sem allir kunna og syngja á mannamótum.

Svo fór að Gylfi hóf að vinna að sólóplötu 1975 og varð hann fyrstur tónlistarmanna til að taka upp plötu í hljóðverinu Hljóðrita í Hafnarfirði, sem var þá nýbúið að setja á fót. Gylfi samdi að mestu sjálfur sitt efni á plötuna og þar er m.a. að finna þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 1974 sem ber heitið Eyjan mín bjarta, á plötuumslagi stendur einungis ritað Þjóðhátíðarlag Vestmannaeyja 1974. Gylfa sem þótti sopinn góður mun hafa verið svo drukkinn þegar hann söng þetta lag að Gunnar Þórðarson sem stýrði upptökum, þurfti að halda höfðinu á honum við hljóðnemann. Lagið tilheyrir hundruðustu þjóðhátíð Vestmannaeyinga og hefur því sögulegt gildi, en hún var fyrst haldin 1874.

Hljómplötuútgáfan Hljómar, sem áðurnefndur Gunnar og Rúnar Júlíusson ráku saman, gaf plötuna út en þeir Rúnar og Gylfi áttu eftir að starfa mikið saman síðar. Linda Gísladóttir söng á plötunni og var það í fyrsta skipti sem rödd hennar heyrðist á plötu en Gunnar leitaði síðar til hennar þegar hann skóp söngflokkinn Lummurnar sem nutu gríðarmikilla vinsælda nokkrum árum síðar. Gylfi tileinkaði móður sinni plötuna (sem bar nafn hans) og hlaut hún ágætar viðtökur, m.a. þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Nú var Gylfi löngu búinn að missa stjórn á drykkju sinni, platan hafði selst vel og Gylfi fengið gullplötu fyrir hana en plötuna hafði Rúnar útgefandi (sem þá hafði stofnað Geimstein) afhent honum heima, til stóð að afhenda hana opinberlega og formlega þegar næsta plata yrði kynnt en hann var þegar farinn að vinna að henni. Svo kom að því að platan varð tilbúin til útgáfu en þá fannst gullplatan ekki þar sem Gylfi hafði þá látið hana í pant fyrir mat á einhverju fylleríinu. Nýja platan sem var tileinkuð föður Gylfa kom síðan út og bar nafn Gylfa eins og hin fyrsta. Hún hlaut minni athygli en fyrsta platan og fékk fremur slaka dóma í Vísi. Þetta sama ár (1976) kom síðan efni með Gylfa á safnplötunni Hillingar.

Þriðja plata Gylfa leit dagsins ljós 1978 og hlaut titilinn Blindhæð upp í móti, Rúnar Júl. stjórnaði upptökum og annaðist útsetningar ásamt Vigni Bergmann. Gylfi samdi efnið að mestu eins og áður.

Á þessum tíma hafði Gylfi verið settur í eilífðarbann á Óðali af Ólafi Laufdal en hann komst þó inn einu sinni klæddur sem kona og var inni heillengi áður en honum var svo hent út áður. Svo fór að lokum að hann hætti að drekka vorið 1979 en hann hefur sagt í blaðaviðtölum að það hafi gerst eftir símtal við Sigurjón Árnason prest. Í kjölfarið glímdi Gylfi við þunglyndi um tíma.

Nokkru síðar var hljómsveitin eða sönghópurinn Áhöfnin á Halastjörnunni stofnuð, Halastjarnan var afsprengi þeirra Gylfa og Rúnars Júl. en þeir fengu til liðs við sig fjöldann allan af tónlistarfólki til að syngja lög Gylfa inn á plötu sem kom út 1980 og hét Meira salt. Platan sló strax í gegn og eitt laganna, Stolt siglir fleyið mitt, varð strax vinsælt og hefur æ síðan verið sígilt. Annað lag, Ég hvísla yfir hafið varð einnig mjög vinsælt.

Um svipað leyti kom út fyrsta platan með söngævintýrum Gylfa en þær áttu eftir að verða margar, platan innihélt endurunnin ævintýrin um Rauðhettu og Hans og Grétu og fóru Gylfi og félagar hans á kostum í söng og leik. Á plötunni má m.a. heyra í tíu ára gömlum söngvara, Páli Óskari Hjálmtýssyni sem þá var að stíga sín fyrstu skref á tónlistarsviðinu, einnig söng ung söngkona, Margrét Ragna Jónasdóttir (dóttir Jónasar R. Jónssonar) á plötunni. Platan fékk mjög góða dóma í Vísi og Morgunblaðinu.

Þessar tvær plötur urðu til að skjóta Gylfa upp á stjörnuhimininn í íslensku tónlistarlífi og ekki síður félögum hans, Rúnari Júl og Ara Jónssyni sem þá höfðu ekki verið áberandi um árabil. Einnig verður ekki neitað því að Hermann Gunnarsson sýndi á sér nýja hlið, sem sögumaður og söngvari í söngvævintýrinu en hann átti síðan eftir að bætast í hóp Áhafnarinnar á Halastjörnunni. Næstu árin áttu þeir Gylfi eftir að helga sig nokkuð þessum verkefnum
Þess má geta að um svipað leyti kom út plata í Stjörnuplötuseríunni (reyndar kom hún eingöngu út á snælduformi) en ólíkt hinum plötunum í sama flokki hafði þessi plata að geyma orgelleik Gylfa og hét Störnuplata 5: Gylfi Ægisson leikur eigin lög á orgel.

Næsta Halastjörnuplata (Eins og skot) kom 1981. Sú plata fékk ekki eins góðar viðtökur og sú fyrsta en styrkti Gylfa í sessi sem lagahöfund og tónlistarmann.

Gylfi hélt áfram að senda frá sér efni í sama anda næstu misserin og söngævintýrin Í ævintýrleik: Tumi þumall & Jói og baunagrasið var næst á dagskrá, platan fékk góðar viðtökur eins og sú fyrsta og seldist vel, hún fékk ennfremur góða dóma í Morgunblaðinu. Þórir Baldursson hafði þá bæst í hóp ævintýramanna en hann hafði einnig komið að plötum Áhafnarinnar á Halastjörnunni.

Sama ár (1982) kom þriðja söngævintýrið út en það var ævintýrið um Eldfærin, platan fékk góða dóma í Morgunblaðinu og seldist ágætlega eins og fyrri plöturnar. Allar voru plöturnar unnar í Upptökuheimili Geimsteins sem var í eigu Rúnars Júl.

Um sama leyti kom út þriðja plata Áhafnarinnar á Halastjörnunni, Úr kuldanum, þannig að ekki verður annað sagt en að Gylfi hafi haft nóg að gera, hann kemur þó fram eingöngu sem laga- og textahöfundur á plötum Halastjarnarinnar, utan þeirrar fyrstu en þar söng hann einnig.

Fjórða ævintýraplatan kom síðan fyrir jólin 1983 en hún hét Ævintýrin Stígvélaði kötturinn & Kiðlingarnir sjö. Það varð síðasta söngævintýri Gylfa í bili en hann átti eftir að koma síðar með annars konar ævintýri með söngvum. Fjórða og síðasta plata Halastjörnumeðlima, Ég kveðju sendi-herra, kom einnig út þetta ár. Þar með hafði hann komið meira og minna að átta plötum á aðeins fjórum árum.

Það leið ár áður en Gylfi lét til sín taka á nýjan leik, þá kom út platan Sumarplata sjómannsins sem hafði að mestu að geyma lög hans en þau flutti hann sjálfur ásamt Hermanni Gunnarssyni, Einari Sigurfinnssyni, Margréti Sighvatsdóttur og dóttur sinni, Selmu Hrönn Gylfadóttur [Maríudóttur]. Þrátt fyrir að platan fengi fremur misjafna dóma (mjög slaka í DV en mun betri í Morgunblaðinu) seldist hún ágætlega, þ.a. í 1100 eintökum fyrstu vikuna en plötuna gaf Gylfi út sjálfur undir merkjum Stúdíó Stjörnu.

Þótt Gylfi hefði gefið út sína síðustu plötu byggða á þekktum ævintýrum Grimms-bræðra, var hann alls ekki hættur í ævintýrunum og fyrir jólin 1986 kom út fyrsta platan hans um Valla en sú bar titilinn Valli og snæálfarnir og gerðist í Snæfellsjökli, um var að ræða söngævintýri í anda þeirra sem hann hafði áður unnið að. Þessi plata þótti hvað merkilegust fyrir það að Gylfi samdi allt efnið sjálfur, talaða málið, lögin og textana, útsetti og lék á öll hljóðfæri, stýrði upptökum og hannaði og myndskreytti plötuumslagið að auki. Það er líklega í fyrsta skipti sem slíkt gerðist á Íslandi en hann átti eftir að endurtaka þann leik alloft á næstu áratugum. Platan var pressuð í mismunandi litum, a.m.k. grænum, bláum og hvítum.

Í framhaldinu fór fremur lítið fyrir Gylfa en árið 1988 komu út tveir titlar á hans vegum, annars vegar platan Sjúdderari rei þar sem hann söng og lék á öll hljóðfæri en þar er m.a. að finna flutning hans á laginu Í sól og sumaryl en það hafði ekki komið áður út á plötu flutt af honum sjálfum. Þar er einnig að finna titillagið Sjúddirari rei sem naut töluverðra vinsælda og varð líklega til þess að platan seldist ágætlega. Hins vegar kom út snælda Gylfa með jólalögum en hún heitir einfaldlega Gylfi Ægisson leikur jólalög.

1989 kom út metsöluplatan Litið til baka: Gylfi Ægisson leikur og syngur 14 vinsælustu lögin sín, hún hefur selst í um tuttugu þúsund eintökum enda flest vinsælustu laga hans komin saman á eina plötu, sungin og leikin af honum sjálfum.

Tvö ár liðu þar til næsta plata kom út en hún bar hinn sérstæða titil Gylfi Ægisson syngur um forfeðurna, Ólu, íslensku farmennina o.fl. Platan var tíu laga og sá Gylfi að venju um allan flutning, útsetningar og upptökur. Platan var gefin út undir nýju útgáfumerki Gylfa, GÆ-plötur. Eitt laganna á plötunni, Ég stóð oft einn, var tileinkað Drottni og minningu Sigurjóns prests Árnasonar sem bað fyrir honum þegar hann hætti að drekka tólf árum áður. Hún var síðan endurútgefin 2007 ásamt lögum af plötunni Litið til baka.

Næsta ár, 1992 kom út platan Holli rolli rei og enn annaðist Gylfi sjálfur alla vinnuna en árið eftir kom út snælda þar sem Gylfi lék jólalög á harmonikku ásamt dóttur sinni, Selmu Hrönn Gylfadóttur / Maríudóttur. Sú plata hét Í jólaskapi.

Ísland, Ísland landið mitt góða hét næsta plata Gylfa og kom út 1994. Síðan hefur Gylfi verið æði afkastamikill og hefur sent frá sér plötur ríflega árlega, 1995 kom út platan Kveðja að handan og ári síðar kom út safnplata með lögum Gylfa sem hann hafði sjálfur flutt á plötum sínum á árunum 1975 – 82. Hún ber heitið 20 bestu köstin.

Sama ár kom platan Hetjur hafsins út og á henni er kappinn allt í öllu eins og oft áður, laga- og textasmiður, auk þess að sjá um allar útsetningar, söng og hljóðfæraleik.

Þá var næst komið að harmonikkuplötunni Harmonikkufjör (1997) þar sem Gylfi flytur 14 af vinsælustu lögunum sínum, en næsta plata hans hét Gylfi Ægisson og fjörfiskarnir (1998) þar sem hann flutti tónlist sína með aðstoð hóps sem kallast Fjörfiskarnir. Ekki er hægt að segja að tónlist hans hafi á þessum árum farið hátt, enda farin að bera keim að iðnaðarframleiðslu. Því er þó ekki að neita að Gylfi hefur alltaf átt dyggan stuðningshóp sem kaupir plötur hans og verið honum hvatning í þess sem hann hefur verið að gera.

1999 kom út platan Fjör á Fróni og ári síðar fyrsta platan af þremur sem hann vann með Gerði Gunnarsdóttur þáverandi eiginkonu sinni, sú hét Gylfi og Gerður í léttum takti. Á þeirri plötu var að finna gömul og ný lög Gylfa sem hann flutti með henni. Gleðilega jólahátíð með Gylfa og Gerði kom einnig út síðar þetta sama ár (2000) en þar fluttu þau skötuhjúin ásamt fleirum sígild jólalög í bland við frumsamin, Gylfi sá þó alfarið um hljóðfæraleik. Platan fékk einkennilega gagnrýni í Morgunblaðinu, sem bæði mátti túlka sem frábæra og einnig mjög neikvæða.

Gylfi Ægisson

Gylfi Ægisson

Og Gylfi var með fleiri járn í eldinum þetta sama ár því um vorið hafði hljómsveitin Ensími fengið hann til liðs við sig við flutning á laginu Draumur okkar beggja sem kom um sumarið út á plötu sem gefin var út til heiður Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu, en sú sveit hafði einmitt flutt lagið í myndinni.
2001 kom síðan út þriðja platan í tríólógíunni með Gerði en hún hét Fullur máni, á henni var að finna frumsamin lög Gylfa.

Enn kom út plata með Gylfa 2002 en þar var hann einn á ferð, hún heitir Á leið í land og hefur að geyma vinsæl lög hans í eigin flutningi. Síðar sama ár kom út ævintýraplatan Valli og töfrakúlan en Gylfi hafði þá ekki gefið út slíka plötu síðan 1986 þegar Valli og snæálfarnir kom út, hún var reyndar endurútgefin 2001 og hefur það vafalaust orðið kveikjan að útgáfu nýju plötunnar.

2003 kom út platan Á léttu nótunum og eins og venjulega annaðist Gylfi alla þætti útgáfunnar, allt frá því að semja tónlistina til umslagaskreytinga.
Platan Í stuði var næst á dagskrá (2004) og 2005 kom út Þeir voru sannir sjómenn, Léttur og hress hét platan sem kom út 2006 og 2007 kom út plata með eldri lögum, Líf og fjör í gömlum glæðum. Á öllum þessum plötum er Gylfi allt í öllu utan þess að Hermann Gunnarsson syngur á síðast nefndu plötunni sem gestur.

Gylfi og gítarinn hét næsta plata en hún kom út 2008, þar flytur Gylfi ýmsa íslenska rútubílastandarda eftir sig og aðra. Ævintýri Valla hafa ennfremur haldið áfram að koma út og hafa þrjár plötur til viðbótar komið út, Valli og haförninn, Valli og sjóræningjarnir og Valli og myrkrahöfðinginn (2008). Ekki liggja þó fyrir nánari upplýsingar um þær útgáfur.

2009 var einkar stórt ár hjá Gylfa, fyrir jólin kom út ævisaga kappans, Sjúddirarí rei sem Sólmundur Hólm skráði en hún naut mikilla vinsælda, einnig gáfu Papar út plötu honum til heiðurs, Ég verð að dansa: Lög og textar Gylfa Ægissonar. Þetta sama ár kom út platan Jóhanna og Gylfi þar sem hann flytur ásamt unnustu sinni Jóhönnu Magnúsdóttur en hann hafði slitið samvistum við Gerði nokkrum árum fyrr. Enn á ný söng hann eigin lög sem áður höfðu komið út á plötum, í bland við þekkt lög eins og Játningu eftir Sigfús Halldórsson við ljóð Reykjavíkurskáldsins Tómasar Guðmundssonar.

Gylfa Ægisson má klárlega telja með afkastamestum tónlistarmönnum Íslands fyrr og síðar, sólóplötur hans eru orðnar á fjórða tug og þá eru ekki taldar með þær sem hann vann með Áhöfninni á Halastjörnunni en auk þess hefur hann komið að fjölda annarra platna einkum sem höfundur tónlistar og texta. Safnplötur með lögum eftir hann eru ennfremur löngu orðnar óteljandi.

Þótt Gylfi feti troðnar slóðir sem tónlistarmaður og teljist allt að því naívískur í sköpun sinni og flutningi hefur hann fyrir löngu öðlast virðingu tónlistarmanna á Íslandi. Og enn er ekkert sem bendir til að hann sé að fara að slaka á, samstarf hans við tvær aðrar kanónur, Rúnar Þór Pétursson og sjálfan Megas í tríóinu GRM sannar það.

Efni á plötum

Rate this:

Deila:

  • Facebook
  • Tölvupóstur
  • Prenta

Líkar við:

Líka við Hleð...
19/01/2015 í G. Merki:20 bestu köstin, Á léttu nótunum, Á leið í land, Ævintýrin Stígvélaði kötturinn & Kiðlingarnir sjö, Í ævintýraleik: Tumi þumall & Jói og baunagrasið, Í stuði, Ísland, Ísland landið mitt góða, Þeir voru sannir sjómenn, Blindhæð upp í móti, Fjör á fróni, Gylfi Ægisson, Harmonikkufjör: Gylfi Ægisson leikur 14 af vinsælustu lögunum sínum, Hetjur hafsins, Holli rolli rei, Kveðja að handan, Léttur og hress, Líf og fjör í gömlum glæðum: 20 eldri lög, Litið til baka: Gylfi Ægisson leikur og syngur 14 vinsælustu lögin sín, Sjúddirari rei, Stjörnuplata 5: Gylfi Ægisson leikur eigin lög á orgel, Sumarplata sjómannsins, Valli og haförninn, Valli og myrkrahöfðinginn, Valli og sjóræningjarnir, Valli og snæálfarnir, Valli og töfrakúlan

Tengdar færslur

Gylfi Ægisson – Efni á plötum

Afmælisbörn 10. nóvember 2021

Afmælisbörn 10. nóvember 2014

Færslu leiðarstýring

← Gylfi Ægisson – Efni á plötum
Gúanó-bandið (1979) →

Leit á Glatkistunni

Glatkistan á Facebook

Glatkistan á Facebook

Færsludagatal

janúar 2015
M F V F F S S
 1234
567891011
12131415161718
19202122232425
262728293031  
« Des   Feb »

Tölfræði

  • 1.524.982 flettingar frá upphafi
Bloggaðu hjá WordPress.com. eftir Konstantin Kovshenin.
  • Fylgja Fylgja
    • Glatkistan
    • Already have a WordPress.com account? Log in now.
    • Glatkistan
    • Sérsníða
    • Fylgja Fylgja
    • Skrá mig
    • Innskráning
    • Copy shortlink
    • Report this content
    • View post in Reader
    • Manage subscriptions
    • Collapse this bar
 

Hleð athugasemdir...
 

    %d bloggurum líkar þetta: